Fjórðungsþing: afhendingaröryggi raforku tryggt með tvöföldun tenginga

Ályktun Fjórðungsþings, sem haldið var um síðustu helgi, um orkumál er tvískipt. Varðandi atvinnumál er lögð áhersla á að Kerfisáætlun Landsnets fyrir næstu 10 ár verði fylgt eftir til að tryggja afhendingaröryggi byggðarlaga á Vestfjörðum með tvöföldun tenginga. „Greining á hagrænum áhrifum af lélegu afhendingaröryggi og takmörkun á afhendingu orku, hefur leitt í ljós verri þróun launa m.a. í Ísafjarðarbæ í samanburði við önnur sveitarfélög utan Vestfjarða. Mótmælt er að árið 2029 standi Vestfirðir standi enn skör aftar en aðrir landshlutar, þrátt fyrir úrbætur.“

Í samfélagshluta orkumála er gerð krafa á iðnaðarráðherra að leysa orkumál samfélaga á Vestfjörðum á grundvelli tillagna starfshóps ráðherra um bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

„Stór hluti húsnæðis er hitaður með raforku og er kostnaður mun hærri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum þrátt fyrir verulegar niðurgreiðslur að hálfu hins opinbera.  Hækkun á raforku og dreifing hennar er fyrirséð og að óbreyttu þarf þá að hækka niðurgreiðslur. Finna verði framtíðarlausnir til að mæta þessum áskorunum m.a. auka fjárveitingar til jarðhitaleitar.“

DEILA