Fiskeldið 10% af sjávarútvegi

Í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er greint frá vaxandi efnahagslegri þýðingu fiskeldis í þjóðarbúskapnum.

Umsvif í fiskeldi hafa aukist verulega á undanförnum árum og er greinin ein af fáum útflutningsgreinum sem eru í vexti um þessar mundir. Hefur vægi greinarinnar í útflutningstekjum þjóðarbúsins aukist nær stöðugt síðasta áratuginn. Miðað við útflutningsverðmæti sjávarafurða voru eldisafurðir komnar í tæp 10% en miðað við verðmæti vöruútflutnings alls var verðmæti þeirra rúm 4%. Á næstu árum eru horfur á enn frekari aukningu í framleiðslu á eldisfiski á næstu árum sé tekið mið af áformum eldisfyrirtækjanna.

Erlend fjárfesting hjálpar til

Um erlenda fjárfestingu segir í fréttabréfinu:

„Fyrirtækin eru íslensk, þó að sum þeirra séu í meirihlutaeigu erlendra aðila og nú þegar eru tvö af sjóeldisfyrirtækjunum hér við land á hlutabréfamarkaði. Benda má á að erlend fjárfesting getur átt þátt í að dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbygginu sem er vissulega af hinu góða. Að íslensku fiskeldi hafa jafnframt komið fagaðilar, sem ekki hafa einungis sett fjármagn í uppbyggingu heldur einnig miðað af reynslu sinni og þekkingu til uppbyggingar greinarinnar. Fiskeldi er enn í uppbyggingarfasa og hvernig tekst til mun skipta miklu máli fyrir þau byggðarlög sem á það treysta. Vitaskuld hefur greinin einnig jákvæð áhrif á útflutningstekjur og treystir þar með gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Ber því að taka því fagnandi að fjárfestar, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, sjái tækifæri í því að fjárfesta í fiskeldi hér á landi.“