Dýrafjarðargöngin opnuð fyrir umferð

Í gær varð sá merkisatburður að ny jarðgöng á Vestfjörðum voru tekin í noktun. Dýrafjarðargöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar voru opnuð fyrir umferð. Með göngunum verður hin erfiða Hrafnseyrarheiði ekki lengur farartálmi vegfarenda milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða.  Göngin eru frá Dröngum í innanverðum Dýrafirði og koma út í Arnarfirði í Borgarfirðinum við Rauðstaði.

Göngin eru í stuttu máli mjög svipuð Bolungavíkurgöngum að lengd og gerð en sjá má töluverðar framfarir í hönnuninni, frágangi vegar og ljósabúnaði. Aldarfjórðungur er síðan Vestfjarðagöngin milli Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar voru tekin í notkun og gríðarlegur munur er á þeim göngum og þessum. Leikur varla nokkur vafi á því að Dýrafjarðargöngin eru fullkomnustu göngin á landinu.

Mikill mannfjöldi gerði sér ferð að göngunum báðum megin frá og gladdist yfir þessum áfanga með því að aka í gegn. Vígsluathöfnin var einvörðungu rafræn og sátu gestir í bílum sínum enda annað ekki unnt vegna covid veirunnar. Venjulegri hátíðarathöfn var boðuð síðar.

Vegamálastjóri Bergþóra Þorkelsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra fluttu ávörp. Bergþóra þakkaði sérstaklega Gísla Eiríkssyni , verkfræðingi fyrir störf hans að uppbyggingu vegakerfisins á Vestfjörðum frá 1980 þegar hann fluttist vestur og tók við umdæmisskrifstofunni á Vestförðum.

Í ávarpi Samgönguráðherra kom fram að bygging nýs vegar yfir Dynjandisheiði og í Gufudalssveit væri næst á dagskrá stórra verkefna á Vestfjörðum  og væri áformað að ljúka þeim báðum á árinu 2024.  Í framhaldi af þeim væri það nýr Bíldudalsvegur frá flugvellinum á Bíldudal og upp á Dynjandisheiði. Þetta verkefni er á á öðru tímabili  samgönguáætlunar, og ætti því að vera lokið á tímabilinu 2025-2029.

Um áhrifin sagði Sigurður Ingi:

„Dýrafjarðargöng er enn einn áfanginn í þeirri vegferð að koma Vestfjörðum öllum í almennilegt heilsársvegasamband og sumir myndu segja við umheiminn. Ferðaþjónustan mun styrkjast þegar greið leið liggur allt árið að náttúruperlum Vestfjarða. Ég er þess fullviss að menning og afþreying mun styrkjast með tilkomu heilsárstengingar milli Suðurfjarða og norður um. Nú opnast til dæmis möguleikar fyrir krakkana á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði og víðar að bregða sér t.d. til Ísafjarðar á skíði. Og á sama verður auðveldara fyrir þá sem koma norðan frá, að skreppa til þessara staða, nú eða fara suður til Reykjavíkur. En síðast og ekki síst þá munu Dýrafjarðargöng auka umferðaröryggi íbúa á svæðinu. Það er ekki nokkur spurning í mínum huga að allar þessar framkvæmdir muni skila sér margfalt til baka til samfélagsins.“

Ekið í göngunum til Arnarfjarðar.
Vegagerðarmennirnir Sigurður G. Sverrisson og Guðmundur Björgvinsson voru glaðir í bragði að loknu góðu dagsverki.
Horft til ganganna Arnarfjarðarmegin.