Dýrafjarðargöng verða opnuð sunndaginn 25. október

Sunnudaginn 25. október kl. 14:00 verða Dýrafjarðargöng opnuð með óhefðbundnum hætti sökum kórónuveirufaraldursins. Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannson og forstjóri Vegagerðarinnar Bergþóra Þorkelsdóttir verða stödd í húsakynnum Vegagerðarinnar í Reykjavík. Að loknum stuttum ávörpum mun ráðherra biðja vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði að lyfta slánum við gangamunnana og þannig opna göngin fyrir umferð. Ávörpunum verður útvarpað við báða munna ganganna á FM-tíðninni 106,1. Viðburðinum verður streymt á Facebook síðu Vegagerðarinnar: www.facebook.com/Vegagerdin, streymt verður á slóðinni https://livestream.com/accounts/5108236/events/9367337

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni í gær.

Skólabörnin fyrst í gegn

Vestfirðingum er boðið að safnast saman í bílum sínum við báða munna ganganna og fá þannig tækifæri til að aka í gegnum göngin um leið og þau hafa verið opnuð. Nemendur Grunnskólans á Þingeyri munu fyrstir aka í gegn Dýrafjarðarmegin ásamt Gunnari Gísla Sigurðssyni sem hefur mokað Hrafnseyrarheiði síðan árið 1974. Skólabörnin hafa þrýst á um samgöngubætur og óskuðu strax eftir því við samgönguráðherra í janúar að fá að aka fyrst í gegnum göngin. Ljúft var að verða við þeirri ósk. Fólk er hvatt til að halda sig í bílunum og tryggja þannig að öllum reglum um sóttvarnir sé fylgt til hins ítrasta.

Dynjandisheiði mokuð á sunnudaginn ef þess þarf

Dynjandisheiðin verður mokuð á sunnudag ef reynist þörf fyrir það. Þeir sem bíða eftir því að aka í gegn eru beðnir um að safnast í einfalda bílaröð á hægri kanti vegarins og að aka viðstöðulaust í gegn eftir að opnað hefur verið. Fyrir þá sem koma að norðan þá eru góðar tengingar til að snúa við eftir ferð í gegnum göngin vestan við brú á Mjólká. Þeir sem koma að vestan og hafa ekið í gegn geta snúið við nærri Kjaransstöðum þar sem eru góðar tengingar.

DEILA