Dýrafjarðargöng verða opnuð sunnudaginn 25. október 2020. Opnunin verður með óvenjulegu sniði í ljósi þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að stutt athöfn fari fram klukkan 14 í húsnæði Vegagerðarinnar Borgartúni 7. Þar mun Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra halda ræðu sem útvarpað verður í þá bíla sem bíða þess að aka í fyrsta sinn í gegnum göngin.
Ráðherra mun hringja í vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði sem opnar þá hliðin að göngunum beggja megin frá. Þar með verða göngin opin.
Vegurinn upp að göngunum verður opnaður að morgni sunnudagsins og Vestfirðingar eru hvattir til að mæta, hlusta á stutta ræðu inní bílum sínum og vera með þeim fyrstu til að aka í gegnum göngin.
Vígsla jarðganga er yfirleitt mikill viðburður enda hafa slík göng gríðarmikil áhrif á samgöngur í sveitarfélögum. Vestfirðingar hafa lengi beðið Dýrafjarðarganga sem koma í stað vegarins yfir Hrafnseyrarheiði sem hefur verið einn helsti farartálminn milli byggða á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4 km. Til stendur að halda veglegri viðburð með rísandi sól þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa.
Viðburðinum verður einnig streymt rafrænt á facebooksíðu Vegagerðarinnar.