Djúpið: rækjubátur fékk í skrúfuna

Björgunarskip á Ísafirði var kallað út klukkan hálf ellefu vegna vélarvana skips innarlega í Djúpinu. Um er að ræða rækjubátinn Halldór Sigurðsson ÍS sem fékk trollið í skrúfuna. Skipið sem var á veiðum varð vélarvana og rekur nú hægt að landi með þrjá menn um borð. Björgunarskipið Gísli Jóns fór úr höfn á Ísafirði um 10 mínútum eftir að útkall barst og er á leiðinni til aðstoðar skipinu.

Skömmu fyrir kl 13 var björgunarskipið Gísli Jóns komið að Halldóri Sigurðssyni ÍS og greiðlega gekk að koma taug á milli skipanna.  Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar sagði að áhöfninni hefði tekist að setja út akkeri og það hægði á landrekinu. Skipin eru nú á leiðinni til Ísafjarðar.

Fréttin hefur verið uppfærð.