Arctic Fish: slátrun hafin í Patreksfirði

Frá vinstri til hægri: Gunnar Daníel, Kristján Kári, Óskar Gíslason og Páll Líndal. Mynd: arctic fish.

Arctic Fish hefur hafið slátrun á eldislaxi úr kvíum í Patreksfirði. Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar sagði í samtali við Bæjarins besta að þetta væri í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins að lax er slátrað utan Dýrafjarðar en áður hefur verið slátrað silung í Önundarfirði einnig.

Klátrað er úr kví K-1 sem er fyrir utan Sandoddann. Í henni eru um 600 tonn eða um 100  þúsund fiskar. Meðalþyngd er um 6 kg hver fiskur. Alls eru 10 kvíar á þessu svæði.

Sigurður sagði að sett hefðu verið út 200 gramma seiði, sem voru alin í seiðaeldisstöð fyrirtækisins í Tálknafirði. Hann sagði það athyglisvert að það tók 2 ár að ala seiðin í landi fyrir útsetningu í kvína en þau hefðu aðeins verið 16 mánuði í sjó og hefðu á þeim tíma vaxið upp i 6 kg. Þetta væri til marks um frábært starfsfólk og góð skilyrði fyrir sjókvíaeldi.

Slátrun fer fram á Bíldudal í sláturhúsi Arnarlax , en samstarf er milli fyrirtækjanna. Allt að 80 tonnum af laxi  er slátrað á hverjum degi.

DEILA