Aflþörf og útleysingar á Vestfjörðum

Á hefðbundum degi fara um 35-45 MW af raforku um Vesturlínu frá tengivirki Landsnets í Hrútatúngu til Mjólkárvirkjunnar. Þetta afl er um 40% af heildarafli því sem notað er á Vestfjörðum. Komi upp bilun í Vesturlínu, þá er varaflstöð Landsnets í Bolungarvík ræst og getur hún framleitt 10,8 MW en það afl til viðbótar við virkjannir á Vestfjörðum, dugir til að halda inni öllum forgangsnotendum á Vestfjörðum.

Áhrif útleysinga.

Við útleysingu tekur það sjálfvirkt kerfi varaflstöðvar um 90 sekúndur að keyra vélar sínar og kerfi í gang. Það er vissulega ekki langur tími og áhrif hans ekki mikil á heimili okkar. En áhrifin á atvinnustarfsemi eru nokkru meiri en þessar 90 sekúntur. Fyrir flest fyrirtæki tekur það 10 til 20 mínútur að keyra sín kerfi aftur upp og komast í eðlilegt horf. Stærri framleiðslufyrirtæki eru svo gjarnan um 30 til 60 mínútur að koma sinni framleiðslu í full afköst og hjá þeim sem fyrir mestum áhrifum verða getur það tekið allt upp í 3 klst að koma framleiðslunni aftur af stað.

Þegar skipt hefur verið yfir á varaafl þá er lokað fyrir notkun þeirra sem ekki eru forgangsnotendur. Til slíkra notenda teljast meðal annars kyndistöðvar sem nota 16 MW af rafmagni og svo fyrirtæki eins og t.d. Íslenska Kalkþörungafélagið á Bíldudal sem notar í dag um 3,5MW og Kampi ehf á Ísafirði sem nota allt að 2 MW. Rétt er að taka fram að Íslenska Kalkþörungafélagið vinnur nú að stækkun hjá sér sem þýðir að notkun þeirra mun á næstu vikum hækka í 5MW.

Fækkun ótiltækis mínútna eða fækkun útleysinga.

Í umræðunni um afhendingaröryggi á Vestfjörðum hafa forsvarsmenn orkufyrirtækjanna réttilega bent á að fjölda ótiltækis mínútna á Vestfjörðum hafi fækkað verulega á síðustu árum. Á íslensku þýðir þetta að þeim mínútum sem er rafmagnslaust hefur fækkað verulega á síðustu árum og getum við þakkað sjálfvirku varaaflstöðvunum fyrir það. Það sem þessir sömu aðilar virðast svo ekki eins tilbúnir að ræða er staðan á fjölda útleysinga. Þeim hefur nefnilega ekkert fækkað við þær umbætur sem gerðar hafa verið á síðustu árum. Það eina sem fækkað hefur fjölda útleysinga er verklag orkufyrirtækjana í vondum veðrum.

Í óveðrinu sem gekk yfir landið í desember í fyrra kom það mörgum á óvart hve lítil áhrif veðrið hafði hér á Vestfjörðum. Ástæða þess er nefnilega ekki að veðrið hafi verið svona miklu skárra hér heldur en annarstaðar. Ástæðan er sú að áður en veðrið varð hvað verst þá ákváðu starfsmenn Landsnets og OV að færa framleiðsu raforku yfir á varaaflsvélar og því urðum við ekki vör við það þegar tjón urðu á stóru línunum hér fyrir vestan.

Hvernig fækkum við útleysingum?

Bent hefur verið á nokkrar leiðir til að fækka útleysingum. Aukin raforkuframleiðsla á svæðinu væri að mínu mati besti kosturinn en við höfum því miður takmarkað valkosti þar í boði. Önnur flutningsleið til viðbótar við Vesturlínu og þá aðra leið inn á svæðið er einnig leið sem gæti bætt veruleg úr ástandinu. Þá hefur verið bent á notkun þétta og rafhlaðna sem myndu halda uppi rafmagni í þær mínútur sem tekur varaaflsvélar að keyra sig í gang.

Hvalárvirkjun með tengingu um Ísafjrðardjúp til Ísafjarðar er að mínu mati sá kostur sem skynsamlegastur væri. Auk þess að bæta verulega afhendingaröryggi á svæðinu, gerir hún marga minni virkjannakosti að skynsamlegum fjárfestingum.

 

Afhverju að kaupa skerðanlega orku frekar en forgangsorku?

Þau framleiðslufyrirtæki sem mesta orku nota hér á svæðinu kaupa skerðanlega orku vegna verðsins á henni. Ef þau þyrftu að borga meira fyrir orkuna en þau gera í dag þá yrði hagkvæmara fyrir þau að nota olíu eða gas til að framleiða þann varma sem þau þurfa í sína framleiðslu. Verði þau skikkuð til að kaupa orku á því verði sem greiða þarf fyrir forgangsorku er rekstrargrundvöllur þessara fyrirtækja hreinlega brostinn.

Viljum við halda landinu í byggð?

Lykillinn að því að halda landinu í byggð er að þar sé atvinna. Þjónusta, hvort sem um er að ræða opinber, ferðamennska eða önnur þjónusta getur ekki ein og sér haldið samfélaginu uppi. Framleiðsla í bland við þjónustu er lykillinn að því að samfélög geti lifað góðu lífi.

Lykillinn að góðri framleiðslu er að nýta náttúruna á góðan og skynsamlegan máta. Við þurfum orku og við þurfum hráefni til framleiðslu. Á Vestfjörðum höfum við mjög takmarkað magn af orku til að vinna úr og ekki nægilega góðar flutningsleiðir til að koma meiri orku til svæðisins. Til að Vestfirðir geti lifað góðu lífi til framtíðar þarf að mínu mati bæða að auka hér verulega orkuframleiðslu og bæta flutningsleiðir. Það er ekki mjög græn framtíð í því að ætla að treysta á orkuframleiðslu með olíu, gasi eða öðrum mengandi orkugjöfum.

J. Bæring Pálmason

Höfundur hefur í yfir 10 ár starfað sem vélstjóri í landvinnslum sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum.