1,2 milljarðar króna framlag með sameiningu

Ef Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær og Súðavík myndu sameinast í eitt sveitarfélag kæmu 1,2 milljarða króna sameiningarframlag úr ríkissjóði beint til hins sameinaða sveitarfélags. Þá fjárhæð mætti nýta til fjárfestinga, lækkun skulda eða þróunar samfélagsins.

 

Mikil umræða er nú um sameiningar sveitarfélaga. Meðal annars liggja fyrir drög að frumvarpi um lágmarksfjölda íbúa í hverju sveitarfélagi sem samþykkt hafa verið af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar er kveðið á um að í sveitarstjórnarkosningum árið 2022 verði 250 íbúar lágmarksfjöldi í sveitarfélagi og 1000 árið 2026.

 

Samhliða þessu og til að auka fyrirsjáanleika hefur innanríkisráðherra sett reglur um framlag með hverju sveitarfélagi í hugsanlegum sameiningum. Samkvæmt þeim fylgja 600 m.kr. Ísafjarðarbæ, 465 m.kr. Bolungarvíkurkaupstað og 110 m.kr. Súðavíkurhreppi og gildir þá einu hverjum þessi sveitarfélögsameinast.

Með því að umræddar reglur hafa verið formfestar blasir við að skoða þarf kosti og galla sameiningar hér á norðanverðum Vestfjörðum. Það verður ekki fram hjá því litið að 1200 m.kr. er há upphæð og samsvarar um 240.000 kr. á hvern íbúa eða um 1 milljón króna á vísitölufjölskylduna.

 

Ef valið væri að nýta fjárhæðina í að lækka skuldir mætti gera ráð fyrir að sameinað sveitarfélag hefði um 100-200 milljónir króna meira á milli handanna en nú er, alveg óháð öðru hugsanlegu hagræði sameiningar. Ef ekki væri vilji til að lækka skuldir væri hægt að fara í umtalsverða fjárfestingu fyrir þessa upphæð. Hún gæti samsvarað því, svo að dæmi sé tekið, að íbúar sameinaðs sveitarfélags fengju fyrirhugað knattspyrnuhús á Ísafirði, endurbætta sundaðstöðu í Bolungarvík og fyrirhugaða hafnaraðstöðu í Súðavík gefins frá ríkissjóði bara fyrir það eitt að sameina þessi þrjú sveitarfélög.

 

Við slíkar aðstæður hlýtur það að vera skylda okkar að skoða til hlítar hvort sameina eigi sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum.

 

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.