10,7% fækkun í Reykhólahreppi

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Íbúum í Reykhólahreppi hefur fækkað um 28 eða 10,7% frá 1. desember í fyrra til síðustu mánaðamóta. Það er mesta fækkun á Vestfjörðum greind eftir sveitarfélögum. Að fjölda til hefur þó fækkað meira í Ísafjarðabæ. Þar hefur íbúum fækkað um 52 sem þó er ekki nema 1,4% íbúafjölda. Í Bolungavík fækkaði um 9 íbúa á sama tíma. Samtals varð fækkun á Norðanverðum Vestfjörðum um 61 íbúa, þar sem íbúafjöldi  í Súðavík stóð í stað.Hlutfallslega er það 1,2% fækkun á svæðinu.

Í Strandasýslu fækkaði líka á þessu tímabili, frá 1. desember 2019 til 1. október 2020. Þar var fækkun um 5 í Strandabyggð og um 2 í Árneshreppi en óbreytt staða í Kaldrananeshreppi. Fækkunin í Strandasýslu er því 7 íbúar og 1,2%.

Á sunnanverðum Vestfjörðum varð önnur og hagstæðari þróun. Íbúum fjölgaði bæði í Vesturbyggð og Tálknafirði. Í Vesturbyggð fjölgaði um 23 íbúa og um 19 í Tálknafirði. Samtals varð því fjölgun á svæðinu um 42 íbúa eða 3,3%. Í Tálknafirði einum er fjölgunin 7,5% sem er það langmesta á Vestfjörðum.

Heidartölur fyrir fjórðunginn á tímabilinu varð því fækkun um 54 eða 0,8%.

DEILA