Vestri vann Magna 2:1

Knattspyrnulið Vestra vann góðan sigur á Magna frá Grenivík á Olisvellinum á Torfnesi á Ísafirði í gær. Vestri skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik. Vladimir Tufegdzic skoraði á 27. mínúti og Pétur Bjarnason  gerði annað á 42. mínútu. Magni svaraði rétt fyrir leikhlé með góðu marki eftir aukaspyrnu.  Í síðari hálfleik áttu Vestramenn hverja sóknina á fætur annarri án þess að ná  því að bæta þriðja markinu við, en oft munaði mjóu. Undir lok leiksins fóru norðanmenn að sækja í sig veðrið og gátu verið skeinuhættir í sóknum sínum.

Það voru Vestramenn sem fóru með sanngjarnan sigur af hólmi. Þeir voru greinilega betra liðið á heildina litið. Vestri er nú í 6. sæti deildarinnar með 23 stig en Magni situr á botninum með 9 stig bæði eftir 16 leik af 22.

Staða Vestra fer að verða nokkuð trygg hvað varðar áframhaldandi veru í Langjudeildinni og er það ágætisárangur fyrir nýliða í deildinni. Liðið er 11 stigum fyrir ofan fallsæti og þótt ekkert sé enn öruggt í hendi er staðan vænleg engu að síður.

Vestri er sjö stigum frá öðru sætinu sem gefur sæti í efstu deild og á enn möguleika á því að vinna sig upp um deild en það verður þó að teljast ólíklegt.

Eitt af fjölmörgu dauðafærum vestra í seinni hálfleik í uppsiglingu. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.