Vaktaskipti á Bíldudalsflugvelli

Isavia Innanlandsflugvellir, dótturfélag Isavia ohf., mun á næstu dögum auglýsa eftir starfsmönnum á Bíldudalsflugvöll, sem er einn af áætlunarflugvöllum á landinu og hefur verið það um árabil. Um völlinn fara árlega um þrjú þúsund farþegar og um sjö hundruð hreyfingar eru á vellinum, þ.e. flugtök og lendingar, bæði í áætlunar- og leiguflugi sem og sjúkraflugi.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavina Innanlandsflugvalla, segir að framundan séu mannabreytingar á flugvellinum þar sem að Finnbjörn Bjarnason láti af störfum á næsta ári vegna aldurs.  „Finnbjörn hefur haft umsjón með flugvellinum um árabil og sinnt því starfi af miklum sóma,“ segir Sigrún Björk. „Flugvöllurinn á Bíldudal hefur verið svokallaður einmenningsflugvöllur þar sem að starfsmaðurinn hefur verið á vakt og síðan bakvakt meira og minna allt árið um kring.“

„Við munum auglýsa eftir tveimur starfsmönnum í tvö 70% starfshlutföll til að taka við af Finnbirni,“ segir Sigrún Björk. „Með því móti náum við að dreifa ábyrgð og viðveru eins og nauðsynlegt er.“

Sigrún Björk segir að starf flugvallarstarfsmanns sé skemmtilegt og fjölbreytt. Það krefjist töluverðs undirbúnings og þjálfunar sem fari fram bæði í fjarnámi, í staðarnámi í Reykjavík og þjálfun á Bíldudalsflugvelli.

„Viðkomandi starfsmaður þarf bæði að sinna umsjón með flugbraut og flughlaði, t.d. að hreinsa snjó af brautum og hálkuverja, sinna flugupplýsingaþjónustu og sinna skráningu og  veðurathugunum auk viðbúnaðarþjónustu,“ segir Sigrún Björk.

Þá sinni hann jafnframt umsjón með flugstöð ásamt öðrum mannvirkjum Isavia á Bíldudalsflugvelli og í Selárdal. Einnig þarf starfsmaðurinn að sinna viðhaldi á tækjum og vélbúnaði eftir því sem við er komið ásamt girðingum og minniháttar viðhaldi á fasteignum. Flugradíómenn fara á grunn námskeið hjá Isavia í Reykjavík og læra þar t.a.m. inn á samskipti við flugstjórnarmiðstöð og loftför, gerð veðurskeyta og fleira.

Sigrún Björk hvetur alla áhugasama bæði konur og karla til að sækja um þessi áhugaverðu og spennandi störf sem auglýst verða innan tíðar.