Þarf jarðgöng bæði á Hálfdán og Mikladal

Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangadeildar telur þurfa jarðgöng bæði í gegnum Hálfdán, milli Bíldudals og Tálknafjarðar  og Mikladal, milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem hann hefur tekið saman fyrir Bæjarins besta.

Niðurstaða hans er eftirfarandi:

„Niðurstaða þessar hugleiðinga eru eins og alltaf áður, að mikilvægast fyrir byggðirnar í Vestur Barðastrandasýslu sé að grafa göng undir Hálfdán og Mikladal. Ekki verður gert upp á milli þeirra eða á hvorum eigi að byrja. Samtals teljast þetta vera um um 8,9 km af göngum. Til samanburðar er bent á að göng undir Breiðadals og Botnsheiði eru 9,1 km. Eftir að þeim áfanga væri náð er ekki ólíklegt að það eigi að skoða Klettsháls og jafnvel stutt göng í Helluskarði.“

Miklidalur 2,8 km löng göng

Um Mikladal segir í minnisblaði Gísla Eiríkssonar:

„Hæð á Mikladal er 369 m y.s. Hægt er að hugsa sé gangamunna Patreksfjarðarmegin í nærri 270 m hæð y.s. það er fyrir ofan efra „vatnið“. Munni Tálknafjarðarmegin gæti verið í 180 m y.s. þar sem er smá dalkvos kölluð Víðieyrar. Lengd ganga á milli þessara punkta er um 2.8 km. Vegurinn lækkar aðeins um 100 m það eru þó 35 m lækkun á hvern km ganga. Engin stytting verður á veginum.
Vart er hægt að tala um aðra jarðgangakosti í alvöru. Frá stað í Mikladal ca. 2,5 km frá vegamótum við Kirkjugarðinn á Patreksfirði þyrfti um 6 km göng til Tálknafjarðar með munna í lítilli hæð.
Vegurinn yfir Mikladal er að miklum hluta gamall að stofni til hann var lagfærður lítillega og lagt á hann bundið slitlag rétt fyrir 1990 og má lagfæra meira. Það er þó mjög brött brekka að norðan af háfjallinu niður á Víðeyrarnar sem erfitt er að breyta. Vetrarveður og skyggni skiptir miklu máli.
Veðurstöð er á Mikladal og hægt að rannsaka þau gögn, en verður ekki gert hér.“

Hálfdán 6,1 km löng göng

Um Hálfdán segir að tekist hafi sæmilega að verja veginn snjó en engu að síður sé veðrið og hálkan vandamál:

„Hálfdán var til umræðu árið 1987, í jarðgangaáætluninni sem þá var lögð fram, að vísu aðeins styttri göng en nú. Þá var talið að leysa mætti málið með vegi yfir fjallið. Nýr vegur var lagður eftir 1990 og tókst sæmilega að verja hann snjó, en hálka er vandamál í löngum bröttum brekkum og loks er veðrið jafn vont og áður. Ljóst er að veðrið er umtalsvert vandamál, meðal annars fyrir áætlunarferðir yfir fjallið. Veðurstöð er á Hálfdán og hægt að rannsaka veðrið með hjálp gagna frá henni.“

Um göngin bendir Gísli á eftirfarandi leið:

“ Í 180 m.y.s að vestan og undir Katrínarhorni að norðan í 210 m.y.s., beggja megin fast við núverandi veg yrðu um 6,1 km löng. Stytting vegar um 2,5 km. Fjallvegurinn lækkar um 48 m á hvern km ganga. Vandinn við þessa staðsetningu eru nokkuð brattar brekkur neðan nefndra munnastaða sem ekki er auðvelt að laga, sérstakalega Bíldudalsmegin. Þessar brekkur hafa ekki þótt vandamál hingað til og göng í 200 m hæð ættu að vera fullnægjandi lausn. Benda má á að göng undir Breiðadalsheiði eru 180 m hæð y. s. í Breiðadal. Þar er mun snjóþyngra en við Hálfdán, en hæðin hefur ekki valdið miklum erfiðleikum þar. Undir Hálfdán eru fleiri gangaleiðir mögulegar í minni hæð yfir sjó, en þá mun lengri. Meðal annars er líklega hægt að fara með munna Bíldudalsmegin niður í dalinn og lengja göngin um einn km eða svo.“