Sveitarstjórnarkosningar 2018: Árneshreppur sýknaður – málinu lokið

Frá Árneshreppi. Reykjaneshyrna í Trékyllisvík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landsréttur kvað upp þann 26. júní í sumar upp dóm í kæru Ólafs Valssonar á hendur Árneshreppi og hafnaði kröfum um að hreppsnefndarkosningarnar yrðu ógiltar. Landsréttur staðfesti að öllu leyti dóm Héraðsdóms Vestfjarða og dæmdi Ólaf til þess að greiða Árneshreppi 600.000 kr. í málskostnað.

Fyrir liggur að ekki verður reynt að áfrýja til Hæstaréttar og er því þessum málarekstri lokið.

Upphaf málsins má rekja til átaka um meirihluta í hreppsnefnd Árneshrepps. Deilt var um áform um Hvalárvirkjun. Skömmu fyrir hreppsnefndarkosningar 2018 fjölgaði skyndilega íbúum í Árneshreppi. Þjóðskrá Íslands hóf frumkvæðisrannsókn og felldi niður lögheimilisskráningar allnokkurra einstaklinga í sveitarfélaginu þar sem þeir uppfylltu ekki skilyrði laga fyrir því að skrá lögheimili sitt á ýmsum jörðum í hreppnum, meðal annars eyðijörðum. Í framhaldi af því voru þeir teknir af kjörskrá.

Niðurstaða hreppsnefndarkosninganna varð sú að stuðningsmenn Hvalárvirkjunar höfðu betur og er hreppsnefndin  nýja einhuga í stuðningi sínum.

Tveir íbúar í Árneshreppi, Ólafur Valsson og Elías Kristinsson, kærðu úrslit kosninganna til sýslumanns og töldu þær ólögmætar.

Nefnd sem sýslumaðurinn á Vestfjörðum skipaði kvað upp úrskurð 12. júní 2018 þar
sem kröfu kærenda var hafnað. Kærendurnir kærðu úrskurð nefndarinnar til dómsmálaráðuneytisins 19. júní 2018, en ráðuneytið hafnaði kröfu um ógildingu úrskurðar nefndarinnar með úrskurði 1. ágúst 2018.
Var þá málinu stefnt fyrir dóm og 10. maí 2019 var kröfunni um ógildingu kosninganna vísað frá í Héraðsdómi Vestfjarða og kærendur dæmdir til að greiða Árneshreppi 1.000.000 kr. í málskostnað. Ólafur Valsson ákvað að skjóta málinu til Landsréttar en án árangurs.
Fram kemur í dómi Landsréttar  að allir þeir sem voru felldir af kjörskrá hafið unað við þá niðurstöðu. Þeir stóðu því ekki að kærunum og málarekstrinum.
Ýmsar athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda við framkvæmd kosninganna.
Féllst rétturinn á að annmarkar hefðu verið á undirbúningi og framkvæmd kosninganna en
þeir hefðu þó ekki verið þess eðlis að ætla mætti að áhrif hefði haft á úrslit þeirra.
Kærandinn, Ólafur Valsson er ekki lengur íbúi í Árneshreppi.

 

 

DEILA