Strandveiðar: Fjórðungssambandið kallar eftir sanngirni

Frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga 2018 á Ísafirði.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur verið gagnrýnt fyrir umsögn sína um frumvarpsdrög að ráðstöfun aflaheimilda (atvinnu- og byggðakvóta). Einkum er það í umsögninni sem segir að sanngirnismál sé að setja á svæðaskiptingu í strandveiðum.  Hefur m.a. smábátafélagið Krókur í V-Barðarstrandarsýslu gagnrýnt það og vill að Fjórðungssambandið dragi umsögn sína til baka.

Bæjarins besta leitaði til Fjórðungssambandið og óskaði eftir rökstuðningi þess.

Í svari Fjórðungssambandsins segir að :

„Afstaða Fjórðungssambandsins er að kalla eftir sanngirni og finna leiðir sem tryggi til framtíðar strandveiðar á starfsvæði sambandsins enda er í umsögninni jafnframt sagt. „Hinsvegar skortir útfærslu á því hversu mikið magn mun fara á hvert veiðisvæði og á hverju sú skipting verður byggð.  Þetta þarf að skýra nánar.“  Það skortir útfærslu í drögunum að frumvarpinu á hversu mikið eigi að fara á hvert veiðisvæði og hvaða forsendur ætti að setja til grundvallar til slíkrar skiptingar, svo jafnræðis sé gætt varðandi fjölda skipa og ástundun veiða á starfsvæði Fjórðungssambandsins til lengri tíma litið.“

Þá er í svarinu afstaða Fjórðungssambandsins skýrð frekar og greint frá því við hverja var haft samráð við undirbúning umssagnarinnar.

„Frumvarpið sem Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið lagði fram í Samráðsgátt eru fyrstu drög að lagasetningu á grundvelli skýrslu starfshóps sjávarútvegsráðherra frá í febrúar á þessu ári „Endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda“. Miðað við fjölda umsagna sem bárust um drögin  má ætla að ný drög komi fram í Samráðsgáttinni og gefst þá tækifæri að nýju að taka afstöðu til mála. Frumvarp verður síðan lagt fyrir Alþingi, sem opnar þá fyrir umsagnir til þingsins. Við skil á umsögn Fjórðungssambandsins var áskilin réttur til að koma aftur að málinu þegar þeim álitamálum sem þar er spurt eftir hefur verið svarað.

 

Frumvarpið tekur á mjög mörgum álitamálum er varða byggð á Vestfjörðum og stöðugleika í sjávarútvegi sem grunnatvinnuvegs landshlutans. Þau álitamál sem koma upp eru m.a. samspil fiskvinnslu og trygging aflaheimilda á grunni byggðakvóta og sértæks byggðakvóta sem er mikilvægt fyrir minni byggðarlög. Ráðstöfun línuvilnunar nú þegar hefðbundin beitning í landi er á hröðu undanhaldi en hefur veitt fjölda fólks atvinnu. Ráðstöfun aflaheimilda sem ráðstafað var á sínum tíma vegna hruns í veiðum á innfjarðarrækju og hörpuskel. Síðan má nefna aflaheimildir til ferðaþjónustu og að lokum heimildir til sveitarfélaga til að ráðstafa hluta verðmætis þessara aflaheimilda til aðgerða í nýsköpun atvinnulífs.

 

Við undirbúning umsagnar Fjórðungssambandsins var því haft samband við á annan tug aðila, útgerðir innan smábátakerfis, útgerðir í aflamarkskerfi, minni og stærri fiskvinnslur og fulltrúa sveitarfélaga. Eins hafði Fjórðungssambandið til hliðsjónar viðbrögð við breytingar á svæðaskiptingu í strandsveiðum um að landið væri eitt veiðisvæði sem Alþingi samþykkti á vorþingi 2019, (lög nr 22/2019).  Nú er lagt til að skipta aftur upp í fyrri skiptingu í veiðisvæði við landið. Starfsvæði Fjórðungssambands nær til þess svæðis sem skilgreint er sem A svæði sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi að Súðavíkurhreppi  og einnig B svæðis sem nær frá Árneshreppi til og með Grýtubakkahrepps .  Ólík sjónarmið komu fram á sínum tíma við þessa lagabreytingu (lög 22/2019) og hugsanlegra misskiptingu til lengri tíma litið í aðgengi byggðarlaga að veiðum og lönduðum afla, því hlutdeild strandveiða í heildaraflaheimildum er takmörkuð.“

 

DEILA