SFS: fiskeldisfyrirtækin hafa skilað inn lögboðuðum skýrslum

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafa sent frá sér tilkynningu þar sem áréttað er að fiskeldisfyrirtæki hafa skilað inn framleiðsuskýrslum til Matvælastofnunar og það innan lögboðinna tímamarka.

Fyrirlitning fiskeldisfyrirtækja á lögum er alger

Tilefnið er yfirlýsing frá Icelandic Wildlife Fund sem birtist á facebook síðu samtakanna í fyrradag þar sem því er haldið fram að eldisfyrirtækin hafi ekki enn skilað til Matvælastofnunar vöktunarskýrslum um viðkomu sníkjudýra fjórum mánuðum eftir að reglugerð var sett þar um. Er vísað til svars MAST þar sem fram kemur að stofnunin hafi  ítrekað beiðni um skyldubundinn gögn og mun grípa til viðeigandi stjórnsýsluúrræða ef ástæða er til. Einkum er vísað til laxalúsa í yfirlýsingu IWF.

Segir í yfirlýsingu IWF að fyrirlitning fiskeldisfyrirtækjanna á lögum og reglum landsins vera algera.

Öllum skýrslum skilað á réttum tíma

SFS segir í sinni tilkynningu að framleiðsluskýrslum hafi verið skilað inn á tilsettum tíma og fyrirliggi staðfesting frá fagsviðsstjóra fiskeldis hjá Matvælastofnun á því.

Sigurður Pétursson, framleiðslustjóri hjá Arctic Fish sagði í samtali við Bæjarins besta að fyrirtækið væri ASC vottað og því fylgdi að birtar væru á vefsíðu fyrirtækisins úttektarskýrslur, sem væru öllum aðgengilegar og þar kæmi fram upplýsingar um fjölda lúsa. Sama mun eiga við um Arnarlax. Það hvíldi því engin leynd yfir stöðu mála hvað sníkjudýrin varðar.

Tilkynning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi:

„Í fréttinni er vitnað í Facebook-innlegg frá Icelandic Wildlife Fund þar sem staðhæft er að fiskeldisfyrirtæki hafi ekki skilað inn framleiðsluskýrslum og virt að vettugi athugasemdir Matvælastofnunar þar um. Þessi staðhæfing er röng þar sem slíkum skýrslum hefur undantekningarlaust verið skilað innan lögbundinna tímamarka. Þetta var staðfest af fagssviðsstjóra fiskeldis hjá Matvælastofnun með tölvupósti í dag, 29. september:

„Rekstrarleyfishafar í sjókvíaeldi hafa skilað inn framleiðsluskýrslum í fiskeldi til Matvælastofnunar á tilsettum tíma en ekki á því formi sem Matvælastofnun óskaði upphaflega eftir. Í dag vinna rekstrarleyfishafar og Matvælastofnun að endanlegri lausn vegna skýrsluskilanna.“

Rétt er að taka fram að með gildistöku nýrrar fiskeldisreglugerðar nr. 540/2020 þann 2. júní sl. var Matvælastofnun í fyrsta sinn gert heimilt að framkvæma upplýsingaöflun með rafrænum hætti og skylda fiskeldisfyrirtæki til að skrá framleiðsluskýrslur í gagnagrunn sem stofnunin leggur til. Slíkur gagnagrunnur hefur nú verið settur á laggirnar en notkun hans hefur ekki verið án vandkvæða og dæmi eru um að eldisfyrirtækjum hafi ekki verið kleift að skila skýrslum vegna tæknilegra örðugleika. Hafa eldisfyrirtæki þá gripið til þess ráðs að skila skýrslum beint til Matvælastofnunar. Við það hefur Matvælastofnun gert athugasemdir og eru því yfirstandandi viðræður milli Matvælastofnunar og eldisfyrirtækja um lausn á þessu máli. Meginmáli skiptir þó að öllum umbeðnum og lögákveðnum upplýsingum hefur verið komið á framfæri við Matvælastofnun innan tilskilinna tímamarka.“