Samningur við Ísófit undirritaður

Þriðjudaginn 22. september var undirritaður samningur Ísafjarðarbæjar við Ísófit ehf. um rekstur líkamsræktarstöðvar á Ísafirði.
Samninginn undirrituðu Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og Andrea Gylfadóttir, Ingibjörg Elín Magnúsdóttir og Heba Dís Þrastardóttir fyrir hönd Ísófit.

Líkamsræktarstöð Ísófit hefur fengið nafnið Stöðin heilsurækt og verður til húsa í gömlu mjólkurstöðinni, Sindragötu 2.
Ísófit er þegar komið með aðgang að húsnæðinu og er vinna við breytingar á því hafin.
Fyrirhugað er að í Stöðinni verði tækjasalur, lyftingaraðstaða og aðstaða fyrir hópatíma og verður lögð áhersla á að þjónusta fólk á öllum aldri og að tryggja gott aðgengi.

„Það verður afar ánægjulegt að geta boðið bæjarbúum upp á fjölbreytta aðstöðu til líkamsræktar í rúmu og góðu húsnæði. Hingað til höfum við starfað undir merkjum CrossFit en leggjum nafnið nú til hliðar til að útvíkka starfið í átt að enn frekari uppbyggingu og möguleikum. Við hlökkum mikið til að takast á við verkefnið og bjóðum alla velkomna í Stöðina,“ segir Andrea Gylfadóttir.

Að sögn Andreu er fyrirhugað að opna Stöðina fyrir iðkendum í október þó framkvæmdir í húsnæðinu muni líklega enn standa yfir. Tilkynnt verður um nákvæma dagsetningu á Facebook-síðu Stöðvarinnar