Rannveig Jónsdóttir fékk starfslaun Stofnunar Wilhelms Beckmanns

Ísfirðingurinn og myndlistarmaðurinn Rannveig Jónsdóttir fékk á laugardaginn afhent starfslaun Stofnunar Wilhelms Beckmanns en þau nema 1,2 milljónum króna. Það var forseti íslands Guðni Th Jóhannesson sem afhenti verðlaunin í Safnaðarheimilinu Borgum í Kópavogi.

Tilefnið var útgáfa bókar um Wilhelm Beckmann, tréskurðarmeistarans Wilhelms Ernst Beckmanns sem flýði undan nasistum frá Þýskalandi til Íslands árið 1935, settist hér að og lést 1965.

Í kynningu segir um bókina:

„Saga hans er dramatísk á köflum en fáum kunn og fremur hljótt hefur líka verið um merkilega og fjölbreytta listsköpun hans. Eftir Beckmann eru meðal annars altaristöflur, skírnarfontar og fleiri munir í að minnsta  kosti 13 kirkjum hérlendis. Hann vann að húsgagnaframleiðslu og skar út margvíslega nytjahluti og listmuni, teiknaði og málaði og vinn við grafíska hönnun. Beckmann teiknaði til að  mynda merki Hótels Borgar í Reykjavík 1946. Það er enn notað, þremur aldarfjórðungum síðar.“

Wilhelm Beckmann bjó lengst af í Kópavogi og var fyrsti bæjarlistamaður Kópavogs. Yfirlýst markmið Stofnunar Wilhelms Beckmanns er að varðveita sögu, listsköpun og listaverk hans, kynna þau almenningi og styðja unga myndlistarmenn til náms og starfs.

Samhliða útgáfu bókarinnar voru veitt tvenn starfslaun til myndlistarmanna.

Alls bárust á fjórða tug umsókna um starfslaunin. Sérstakt fagráð, skipað Jónu Hlíf Halldórsdóttur, Guðmundi Oddi Magnússyni og Loga Bjarnasyni, mælti með Rannveigu og Fritz og stjórn Stofnunar Wilhelms Beckmanns samþykkti þá tillögu.

Í umsögn fagráðsins segir meðal annars:

„Umsóknir listamannanna þóttu bera af hvað varðar áhugaverða tillögu, heildsteypta hugmynd og sannfærandi framkvæmdaáætlun. Styrkurinn myndi veita listamönnunum tækifæri til að framkvæma og skapa ný verk.

Litið var til þess að velja listamann af sitt hvoru kyninu og út frá því hvar listamennirnir eru staddir í sínum listferli. Fritz Hendrik og Rannveig hafa bæði myndlistarnám að baki og hafa sýnt verk sín hérlendis og erlendis en eru þó snemma í sínum ferli. Fagráðið taldi því að listamennirnir væru á tímabili í sínum ferli þar sem meðbyr og styrktarfé myndi veita þeim mikinn stuðning.“