Minningartónleikar í Ísafjarðarkirkju á laugardaginn

Ísfirðingurinn Herdís Anna Jónasdóttir sópran og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari og hljómsveitarstjóri halda tónleika í Ísafjarðarkirkju laugardaginn næstkomandi, þann 26. september klukkan 17. Tónleikarnir eru tileinkaðir minningu hjónanna Sigríðar J. Ragnar og Ragnars H. Ragnar sem voru forystumenn í tónlistarmálum Ísfirðinga um áratuga skeið.

Á efnisskránni verða íslensk sönglög, gömul og ný, m.a. eftir Sigvalda Kaldalóns, Jórunni Viðar, Emil Thoroddssen og Jónas Tómasson, en einnig verður frumflutt nýtt lag eftir ísfirska tónskáldið Halldór Smárason.

Tónleikarnir verða án hlés vegna Covid_19.

 

Ragnar stjórnaði Tónlistarskóla Ísafjarðar frá stofnun hans árið 1948 til ársins 1984 og naut til þess aðstoðar Sigríðar, konu sinnar. Ragnar var organisti og stjórnaði Sunnukórnum og Karlakór Ísafjarðar um áratuga skeið. Undir þeirra stjórn varð tónlistarskólinn öflug stofnun, landsþekktur fyrir góða kennslu og kraftmikla stjórn við erfiðar aðstæður. Þau hjón voru einnig áberandi í bæjarlífinu á mörgum öðrum sviðum. Ragnar var m.a. organisti og stjórnaði Sunnukórnum og Karlakór Ísafjarðar um áratuga skeið. Sigríður kenndi við tónlistarskólann, en var jafnframt einn ástsælasti kennari grunnskólans, auk þess sem hún var mjög virk í félagslífi á ýmsum sviðum. Ragnar lést árið 1987, en Sigríður féll frá í mars 1993.

Miðasala við innganginn, miðaverð kr. 3000, 2000 fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn. Frítt fyrir börn.

DEILA