MAKEit verkefnið á Vestfjörðum

Vinningshópurinn, SOS, ásamt hluta af styrktaraðilum verkefnisins við Djúp

Dómarar í vestfirsku MAKEit keppninni tóku sér góðan tíma til að velja bestu hugmyndina af þeim fimm sem keppendur kynntu fyrir þeim á sunnudags eftirmiðdaginn. Þetta voru ótrúlega góðar hugmyndir og dómarar ekki öfundsverðir að þurfa að velja eina Þeirra.

Verðlaunin voru ekki af verri endanum; út að borða á veitingastaðnum Húsinu, aðstoð við umsókn í samkeppnissjóðinn „Báru“ til að fylgja hugmyndinni eftir og árs aðild að nýköpunarsetrinu Djúpinu með þeirri þjónustu sem þar er í boði, m.a. vottaðri framleiðsluaðstöðu. Arctic Fish og Matís munu síðan styðja við vinningshópinn við að taka hugmyndina lengra og vonandi að skapa tækifæri og verðmætasköpun á Vestfjörðum.

Verkefnið

Verkefnið tókst með eindæmum vel þar sem unga fólkið skapaði spennandi hugmyndir og höfðu mjög gaman af. Það var ljóst við kynningu þeirra á hugmyndum að þeir fyrirlestrar sem þeir fengu höfðu haft mikil áhrif á þá. Kynning Arctic Fish á umhverfisvænni framleiðslu laxeldis hefur greinilega skilað sér. Fiskeldi er lykill af sjálfbærni fæðuöflunar í heiminum þar sem hefðbundinn landbúnaður veldur miklu sótspori og kostar mikla röskun á náttúrinni. Sjórinn er 70 % af flatamáli heimsins en enn er aðeins um 2% af fæðuframleiðslu í eldi er kemur þaðan. Lax þarf um 1.1 kg af fóðri til að búa til kíló af kjöti, enda er hann alinn í þyngdarleysi og nýtir því fæðuna mjög vel. Ef sótspor væri miðað við kaloríur myndi laxeldið keppa við grænmeti sem umhverfisvæn framleiðsla, en meðal maður þarf um 2000 kaloríur á hverjum degi.

Sigurvegarar í MAKEit keppninni, SOS

Sigurvegararnir

Sigurvegarar keppninnar kölluðu sig SOS og kynntu hugmynd að vöru sem er fiskiútgáfa af þekktum vöruflokki sem venjulega inniheldur svína- eða nautakjöt. Þetta eru vörur eins og salami og pepperóní en nú verður hægt að bjóða upp á mun hollari vöru og umhverfisvænni.

Verðlaun voru veitt í húsnæði Háskólaseturs Vestfjarða þar sem sigurvegarar tóku við veglegum verðlaunum og hittu hluta af styrktaraðilum verkefnisins. Sú hugmynd kom upp að kynna nýja vöru fyrir Djúpmönnum í október í samvinnu við brugghúsið Dokkuna.

Hugmynd SOS þótti bæði framsækin  og trúverðug en það kom á óvart hversu góðar allar hugmyndir þessara fimm hópa voru og líklegt að einhverjar þeirra komist af hugmyndastigi og skapi verðmæti og störf í framtíðinni. Það var Matís sem hélt utan um MAKEit á Íslandi, en það var jafnframt haldið í Reykjavík á Akureyri og á Norðfirði. Verkefnið er samstarf aðila í 11 löndum Evrópu og er stýrt frá Cambridge háskólanum í Bretlandi.

DEILA