Lögreglan sektar fyrir hraðakstur

Sjö ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu lögreglunnar á Vestfjörðum í nýliðinni viku.

Sá sem hraðast ók var mældur á 131 km hraða á Djúpvegi í Arnkötludal þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km.

Í vikunni þar á undan voru fjórir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók þá var á 120 km hraða í Álftafirði þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

Neyðarboð barst frá ferðafólki á fimmtudag sem hafði fest bifreið sína í drullu hjá Melgraseyri. Slitnaði sambandið við fólkið er það hringdi eftir hjálp og ekki unnt að hringja til baka og tók því nokkurn tíma að finna þau. Hafði það gengið um 10 km þegar hjálp barst þeim. Engan sakaði þó. Bóndi á nærliggjandi bæ kom fólkinu til aðstoðar.

Sama dag var óskað aðstoðar vegna bifreiðar sem var föst í snjó á Þorskafjarðarheiði.