Lengjudeildin: Vestri vann Leikni 2:0

Knattspyrnulið Vestra vann Leikni frá Fáskrúðsfirði með tveimur mörkum gegn engu í gær. Leikið var á Olísvellinum á Torfnesi á Ísafirði. Leikið var við erfiðar aðstæður og var völlurinn blautur og hentuðu aðstæður á köflum  betur fyrir strandbolta en knattspyrnu. Leiknum var flýtt vegna versnandi veðurspár þegar liði á daginn.

Töluvert var um forföll og vantaði eina 6 leikmenn hjá Vestra í hópinn. Var varamannabekkurinn af þeim sökum fremur þunnskipaður.

Nacho Gil skorðai á 10. mínúti leiksins og Viktor Júlíusson bætti öðru við á 66. mínútu. Vestri var betra liði í leiknum og sigurinn sanngjarn.

Eftir sigurinn er Vestri í 6. sæti deildarinnar með 26 stig eftir 17 leiki. Aðeins 5 leikir eru eftir og segja má að sæti Vestri í deildinni er nánast tryggt eftir sigurinn. Neðsta liðið Magni frá Grenivík er aðeins með 9 stig og getur mest fengið 24 stig ef þeim tekst að vinna alla sína leiki sem eftir eru og verður Magni samt með færri stig en Vestri hefur þegar fengið. Þá er næstneðsta liðið Leiknir frá Fáskrúðsfirði, sem Vestri vann í gær, með 12 stig og getur mest fengið 27 stig með því að vinna alla 5 leikina sem liðið á eftir.

Þar sem aðeins tvö lið falla úr deildinni dugar Vestra að fá 2 stig úr fimm síðustu leikjum til þess að fá fleiri stig en Leiknir getur mest fengið og gulltryggja þar með áframhaldandi veru sína í deildinni.

Næsti leikur Vestra verður laugardaginn 26. september á Ísafirði og leikið verður við Keflavík, sem er eitt af toppliðunum í deildinni.