Kvikmyndað í Árneshreppi

Tökur eru nú byrjaðar á kvikmyndinni Svar við bréfi Helgu í Árneshreppi á Ströndum.

Framleiðslufyrirtækið Zik Zak kvikmyndir framleiðir myndina sem verður aðallega tekin upp á bæjunum Litla-Ávík og Stóru -Ávík, ásamt fleiri stöðum.

Aðalleikarar myndarinnar eru þau Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Hera Hilmars og Aníta Briem.

Kvikmyndin er gerð eftir skáldsögu Bergsveins Birgissonar og leikstýrt af Ásu Helgu Hjörleifsdóttur.

Bókin Svar við bréfi Helgu gerist í sveit um og upp úr síðari heimsstyrjöld.
Bjarni bóndi er aðalpersónan og hann er hluti af ástarþríhyrningi þar sem aðrir aðilar eru Helga, gift kona á næsta bæ og Unnur eiginkona hans sem hefur farið í aðgerð sem gerir hana ónýta til barneigna og samræðis við eiginmann sinn.

Bjarni heldur við Helgu en þar kemur að hann verður að taka ákvörðun um hvort hann eigi að taka sig upp og fara með henni til Reykjavíkur eða sitja á jörðinni og það reynist honum örðugt.