Ísafjörður: greiðir Ísófit 420 þúsund kr/mán í þrjú ár

Birtur hefur verið samningur Ísafjarðabæjar við Ísófit ehf um rekstur líkamsræktar á Ísafirði. Ísófit mun fá 420 þúsund krónur á mánuði næstu þrjú árin. Fyrirtækinu verður skylt að bjóða upp á fjölbreytta aðstöðu til líkamsræktar með almennum opnunartíma  og koma til móts við alla aldurshópa.

Líkamsræktartæki og búnaður í eigu Stúdíó Dan ehf. afhendist til láns í því ástandi sem það er. Ekki kemur fram í samningnum hvar aðstaðan á að vera en í greinargerð bæjarstjóra til bæjarráðs kemur fram að við vinnslu málsins frá 24. ágúst hafi komið í ljós að Ísófit hafi nýlega fest kaup á húsnæði að Sindragötu 2 á Ísafirði sem falli enn betur að hugmyndum Ísafjarðarbæjar um að hafa sem  minnsta aðkomu að rekstrinum og sem best aðgengi íbúa almennt að þjónustunni.

„Í kjölfar þess var fyrrgreindur ósamþykktur samningur við Ísófit ehf. tekinn til endurskoðunar og lagður fram að nýju með breyttri styrkfjárhæð, auk þess sem samningnum fylgja upplýsingar um veitta þjónustu félagsins til bæjarbúa. Í samningnum er gert ráð fyrir mánaðarlegum styrk til rekstursins auk láns á líkamsræktartækjum í eigu sveitarfélagsins, en aðkoma sveitarfélagsins yrði engin að öðru leyti, hvorki í formi breytinga á húsnæði í eigu Ísófit ehf. eða ábyrgða á rekstrinum“ segir í minnisblaði bæjarstjóra.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja samning milli Ísafjarðarbæjar og Ísófit ehf. um styrk vegna reksturs líkamsræktarmiðstöðvar. Ekki er ágreiningur um málið í bæjarráði samkvæmt fundargerðinni.

DEILA