Ísafjarðarbær: bæjarstjórn samþykkti samninginn við Ísófit

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti samning við Ísófit ehf um  styrk vegna reksturs líkamsræktarmiðstöðvar. Samningurinn er til þriggja ára og greiðir bærinn 420 þúsund króna styrk á mánuði frá og með 1. október 2020.

Ísófit ehf. skal bjóða íbúum Ísafjarðarbæjar upp á fjölbreytta líkamsræktaraðstöðu, með almennum opnunartíma. Leggja skal áherslu á að koma til móts við alla aldurshópa og stuðla að almennri heilsueflingu íbúa Ísafjarðarbæjar.

Ekki kemur fram í samningnum hvar aðstaðan á að vera en lagt var fram fylgiskjal frá Ísófit þar sem fram kemur að „ÍsóFit ehf hefur nú þegar gert formlegt kauptilboð í eign á góðum stað á Ísafirði.“  Í minnisblaði frá bæjarstjóra segir að Ísófit ehf. hafi fest kaup á húsnæði að Sindragötu 2 á Ísafirði, sem er gamla Mjólkurstöðin.

Samningurinn var samþykktur með fimm atkvæðum gegn þremur. Fulltrúar meirihlutans veittu málinu brautargengi og þrír fulltrúar Í listans greiddu atkvæði gegn. Einn bæjarfulltrúi Í listans, Kristján Andri Guðjónsson, sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Í listans, sem stóð að tillögu bæjarráðs um að samþykkja samninginn var ekki á fundinum.

Í listinn lagði fram ítarlega bókun þar sem málsmeðferð er gagnrýnd og stefnuleysi meirihlutans í málinu. Þá kemur fram að samningsupphæð hafi verið lækkuð um 20.000 kr milli funda og segir að það gæti hafa verið gert til þess að samningsfjárhæð yrði undir útboðsmörkum.

Bókunin í heild:

„Það er margt athugunarvert við málsmeðferð og aðdraganda þessa samnings sem hér liggur til samþykktar. Stefnuleysið er varðar aðkomu og uppbyggingu líkamsræktaraðstöðu er upphafið af þessu stjórnsýsluklúðri.
Hér er tæpt á nokkrum atriðum.
Það er ekki búið að svara erindi frá Þrúðheimum frá 24.ágúst þar sem þau óska eftir gögnum málsins þar sem þau telja að margt sé ámælisvert við málsmeðferðina og ákvarðatöku. Hvers konar stjórnsýsla er það sem svarar ekki erindum frá íbúum sínum og samstarfsfélögum? Ásakanirnar hverfa ekki með þöggun heldur ýta þær undir enn meiri tortryggni.
Þrúðheimar, í samráði við sína lögfræðinga, telja að það liggi rökstuddur grunur um að ekki hafi verið gætt að stjórnsýslulögum nr.37/1993 við meðferð málsins og nefna sérstaklega ákvæði 10., 11., 13. og 15. gr. laganna. Fulltrúar Í-listans bókuðu vegna þessa á bæjarstjórnarfundi þann 3.september sl. í þeirri von að meirihlutinn og bæjarstjóri myndu svara erindinu og fara yfir þau atriði sem gerðar voru athugasemdir við. Það var ekki gert.
Þrúðheimar bíða enn eftir svörum, þau hafa engar upplýsingar um hvenær eða hvernig þau eiga að skila af sér, þ.e. afhenda tækjakostinn og þar með loka dyrunum að sínu fyrirtæki. Í aðsendri grein Baldvinu Karenar Gísladóttur sem birtist á bb.is þann 12.sept sl.segir að þau hafi upplifað þögn, þöggun og almenna hunsun í samskiptum við bæinn og telja að vinnubrögðin séu ekki boðleg og fara fram á bærinn stundi vandaða stjórnsýsluhætti. Bæjarfulltrúar Í-listans taka undir þá réttmætu kröfu.
Það hefur almennt gengið nokkuð illa fá gögn og svör vegna málsins. Það á við bæjarfulltrúa Í-listans, Þrúðaheima og Ísófit. Bæjarstjóri/bæjarritari hafa haldið því fram að gögn varðandi hugmyndir Ísófit hafi verið send bæjarfulltrúum í tölvupósti, það er rangt. Bæjarfulltrúar Í-listans fengu ekki þau gögn fyrr en 10.september sl. eftir að hafa ítrekað óskað eftir þeim en þá var samningur við Ísófit búin að vera tvisvar til umræðu í bæjarráði.
Fyrir fund bæjarráðs þann 17. ágúst höfðu fulltrúar Í-listans aðeins fengið að sjá fyrstu tillögur frá báðum aðilum sem var hafnað með tölvupósti frá bæjarstjóra þann 8. júní sl. Í þeim tillögum var aðeins annar aðili, Þrúðheimar, sem sendi inn fullmótaðar tillögur með kostnaðartölum þar sem m.a. koma fram kostnaður við aðkomu sveitarfélagsins við standsetningu húsnæðis, mánaðarlegur rekstrarstyrkur frá sveitarfélaginu og á móti greiðsla rekstraraðila til sveitarfélagsins vegna leigu á tækjum í eigu sveitarfélagsins.
Hugmyndir Ísófit sem nú stendur til að semja við varðandi rekstur og tækjabúnað líkamsræktarstöð voru aðeins kynntar meirihluta bæjarstjórnar eða fulltrúum þeirra á lokuðum fundum og svo í tölvupóstum til sviðstjóra og bæjarstjóra. Þar koma fram hugmyndir að húsnæði sem aðili getur hugsað sér að vera í til skamms tíma, hugmyndir að rekstrarstyrk og notkun tækja. Þessar hugmyndir voru aldrei lagðar fyrir bæjarráð né komu fulltrúar þess félags fyrir bæjarráð til að kynna sínar hugmyndir eftir að bæjarstjóri sendir út póst til beggja aðila þann 8. júní.
Samningur við Ísófit var lækkaður um 20.000 á milli funda og leiða má af því líkur af það hafi verið gert til að komast hjá því að þurfa að fara með verkið í útboð í samræmi við innkaupalegur sveitarfélagsins. Það er ámælisvert.
Í fyrirliggjandi samningi við Ísófit eru ekki gerðar neinar kröfur um opnunaríma, viðveru starfsmanna o.s.frv. Ætla forsvarsmenn bæjarins að leggja til 420 þúsund krónur á mánuði til næstu þriggja ára án þess að gera meiri kröfur til rekstraraðila? Almennur opnunartími, eins og það er orðað í samningnum bíður upp á margskonar túlkanir. Er opið um helgar, verður opið frá kl.6-22 eins og nú er gert?
Það kemur fram í þeim gögnum sem bæjarfulltrúar Í-listans fengu send 10.sept. að það hefur líka gengið illa hjá Ísófit að fá svör frá forsvarsmönnum bæjarins og nefna þau í tölvupósti til bæjarstjóra þann 29.júní að þau hafi beðið eftir svörum í mánuð, og að tveimur erindum sem þau höfðu sent bænum hafi aldrei verið svarað!
Í minnisblaði sviðstjóra íþrótta og tómstundasviðs þann 11.ágúst sl.kemur fram að hugmyndir Ísófit falli betur að hugmyndum Ísafjarðarbæjar. Það er athyglisvert þar sem umræða um hverjar hugmyndir Ísafjarðarbæjar hefur ekki farið fram nema þá einhverjum lokuðum fundum án fulltrúa Í-listans?
Algjört stefnuleysi hefur einkennt framkvæmd og gjörðir meirhlutans í þessum máli. Á rúmum mánuði hefur meirihlutinn eða formaður bæjarráðs skipt þrisvar um skoðun um hvernig þessum málum ætti að vera fyrirkomið. Einn bæjarráðsfundinn átti að framlengja í Hafnarstræti og byggja upp á Torfnesi, á þeim næsta átti að fara í útboð og á þriðja fundinum lá fyrir samningurinn við Ísófit.“