Innflytjendur 15,2% íbúa landsins. Næst flestir á Vestfjörðum

Hinn 1. janúar 2020 voru 55.354 innflytjendur á Íslandi eða 15,2% mannfjöldans.
Það er fjölgun frá því í fyrra þegar þeir voru 14,1% landsmanna (50.271).
Fjölgun innflytjenda heldur því áfram en frá árinu 2012 hefur þeim fjölgað úr því að vera 8,0% mannfjöldans upp í 15,2%. Innflytjendur af annarri kynslóð fjölgaði einnig á milli ára, þeir voru 5.264 í fyrra en eru nú 5.684.

Samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 16,8% af mannfjöldanum og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega á milli ára og eru nú 7,0% mannfjöldans

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, báða afa og ömmur, sem öll eru fædd erlendis.

Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.
Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.

Hinn 1. janúar síðastliðinn bjuggu 39.115 fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu eða 64,1% allra innflytjenda á landinu. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var mest á Suðurnesjum en þar voru 27,9% innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem 19,9% mannfjöldans voru innflytjendur og börn þeirra. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra en þar voru 9,1% mannfjöldans innflytjendur og börn þeirra.

Eins og síðustu ár eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 20.477 einstaklingar frá Póllandi eða 37% allra innflytjenda.