Innanlandsflug: Vegagerðin skoðar tilboð aftur

Vél Flugfélagsins Ernis á Ísafjarðarflugvelli. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Vegagerðin hefur ákveðið að afturkalla val á tilboði í útboð á áætlunarflugi, til Bíldudals, Gjögurs og Hafnar í Hornafirði, útboð 21114 sérleyfi fyrir Vegagerðina. Þrjú tilboð bárust en tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum 16. júní sl.

Í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni segir að í ljósi nýrra upplýsinga sem fram hafa komið telji Vegagerðin að mögulega hafi verið gerð mistök við mat á tilboðum og því hvort bjóðendur uppfylli kröfur útboðsgagna. Því hefur verið ákveðið að afturkalla fyrri ákvarðanir um val á tilboðum í útboðinu hvað varða alla þrjá leggina þ.e.a.s. flugleiðirnar Reykjavík til Bíldudals, Gjögurs og Hafnar í Hornafirði.

Óskað hefur verið eftir frekari gögnum frá Flugfélaginu Erni ehf. og Norlandair ehf. sem breytt gætu matinu á hæfi bjóðenda. Að þeim upplýsingum fegnum verður valið endurmetið.

Útboðið fór fram í sumar og bárust þrjú tilboð. Flugfélagið Ernir hefur sinnt þessum leiðum undanfarin ár og bauð í alla leiðirnar. Einnig komu tilboð frá Flugfélagi Austurlands og Norlandair.

Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar var 726 milljónir króna fyrir Bíldudal og Gjögur og hálfur milljarður fyrir flugið til Hafnar. Flugfélag Austurlands bauð 392 milljónir króna fyrir Vestfjarðaflugvellina og 370 milljónir króna til Hafnar og var langlægst.   Tilboð Norlandair var 612 milljónir króna fyrir Vestfirðina og 677 m.kr til Hafnar. Flugfélagið Ernir bauð 797 milljónir króna fyrir áætlunarflugið til Bíldudals og Gjögurs en 531 m.kr. til Hafnar.

Vegagerðin tók tilboði Norlandair í allar leiðirnar og tilboðum Ernis og Flugfélags Austurlands var hafnað þar sem þau þóttu ekki uppfylla öll skilyrði sem sett voru.

Flugfélagið Ernir kærði þá ákvörðun og nú hefur Vagagerðin afturkallað formlega valið og mun endurskoða ákvörðunina.

DEILA