Hornbjargsviti

Hornbjargsviti er viti sem stendur í Látravík, sem er næsta vík fyrir austan Hornvík. Fyrr á öldum þótti Látravík ekki álitlegur kostur til ábúðar, og var hún ekki byggð fyrr en 1872, þegar Jóhann Halldórsson bóndi og refakytta settist þar að.
Jóhann er talinn síðasti landnámsmaðurinn, þar sem Látravík er síðasta jörðin sem mæld var úr óskiftum almenningi hér á Íslandi. Í Látravík var svo búið allt fram til 1909, en þá fór jörðin í eyði.

Það var svo árið 1930 að Vitamálastofnun kaupir jörðina og reisir þar Hornbjargsvita.
Vitinn stendur ekki á Hornbjarginu sjálfu, menn munu fljótt hafa séð að það gengi ekki að hafa vitann þar sökum erfiðleika við búsetu nálægt honum, enda þurftu vitaverðir oft að dveljast langdvölum í vitanum við skyldustörf.

Vitinn var fyrstu árin knúinn með gasi og gasþrýstingi, en 1960 var byggð lítil vatnsvirkjun og vitinn raflýstur.
Árið 1995 var vitinn rafvæddur með sólar og vindorku og starf vitavarðar lagt niður. Nú er vitinn nánast alsjálfvirkur, einungis er komið 1-2 sinnum á ári til eftirlits.

Vitinn stendur í um það bil 20 metra hæð yfir sjávarmáli og er hæð vitans 10,2 metrar svo ljóshæð hans er 31 metri yfir sjávarmáli