Hjúkrunarheimilið Eyri: ríkið neitar að yfirtaka húsnæðið

Svar er komið frá ríkinu við erindi Ísafjarðarbæjar sem óskaði eftir því að ríkið yfirtæki húsnæðið sem byggt var fyrir hjúkrunarheiilið Eyri á Ísafirði. Sveiatfélagið byggði og á húsnæðið en ríkið  greiðir leigu fyrir afnotin.

Svar heilbrigðisráðherra er neikvætt. Ríkið muni ekki taka ekki yfir skuldbindingar Ísafjarðabæjar um fyrirliggjandi hjúkrunarheimili.

Þá segir í svari ráðherrans að óski Ísafjarðarbær eftir því að hlé verði gert á undirbúningi framkvæmda við 10 rúma viðbyggingu við Eyri þurfi bærinn  að senda inn
formlegt erindi þess efnis til ráðuneytisins. Viðbyggingin er hins vegar byggð eftir öðru fyrirkomulagi en Eyri. Mun ríkið greiða 85% og sveitarfélagið 15%.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri segist fagna því að ríkið sé með áform um stækkun Eyrar og að sú framkvæmd verði fjármögnuð með hefðbundnum hætti þ.e. 85% ríki og 15% sveitarfélag. Það er því ekki á honum að heyra annað en að sveitarfélagið vilji halda áfram undirbúningi að stækkun Eyrar.

1250 m.kr. skuldbinding

Birgir var spurður að því hvers vegna bæjarfélagið vildi að ríkið yfirtæki húsnæðið.

„Þessi svokallaða leiguleið sem farin var við fjármögnun á byggingu Eyrar er þannig að Ísafjarðarbær fjármagnaði alfarið bygginguna með lántökum úr Íbúðalánasjóði. Ríkið leigir húsnæðið af Ísafjarðarbæ undir starfsemi HVest og er sá samningur til 40 ára. Þegar húsnæðið var tekið í notkun í ársbyrjun 2016 var byggingarkostnaður metin á 1.250 milljónir króna sem er svipað og skuldbinding Ísafjaðarbæjar í dag. Við viljum losna við þessa skuldbindingu úr efnahagsreikningi bæjarins enda er rekstur hjúkrunarheimilis ekki verkefni sveitarfélagsins.“