Fjárflutningabíll valt á Dynjandisheiði

Um miðjan dag í gær valt fjárflutningabíll á Dynjandisheiði.

Bílstjóra og farþega sakaði ekki en um 60 fjár, af þeim 310 sem voru í bifreiðinni drápust eða voru aflífuð á staðnum.

Rannsókn á tildrögum óhappsins er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Héraðsdýralækni var tilkynnt um atvikið sem og öðrum sem við á.

„Þetta er ekki nýjasti vegurinn. Þetta er malarvegur og vegkantarnir eru oft mjúkir. Auk þess var slabb og krap á heiðinni“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir eigendur hafa aflífað kindurnar sjálfir í stað dýralæknis þar sem biðin hefði verið of löng. „Þetta þurfti að gera hratt annars hefði þetta verið of kvalarfullt fyrir kindurnar. Það var ekkert um annað ræða.“

Hlynur segist ekki muna eftir neinum sambærilegum málum á svæðinu. Slysið hafi verið mikil áfall fyrir eigendur.