Fiskeldið er viðspyrna atvinnulífsins fyrir austan og vestan

Einar K. Guðfinnsson hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi segir að um sex hundruð manns starfi við fiskeldi á Íslandi þegar  talin eru saman bæði bein og afleidd störf.

Hann segir fiskeldi á Íslandi í miklum vexti og að Íslendingar verði jafnokar Færeyinga innan ekki mjög margra ára.

Þetta kemur fram í viðtalsþætti á N4 sem sýndur verður í kvöld kl 20:30. Einar K. Guðfinnsson verður þar gestur Karls Eskils Pálssonar í þættinum Landbyggðirnar.

„Þetta eru háar tölur, sérstaklega vegna þess að fiskeldið er að stærstum hluta stundað á Austurlandi og Vestfjörðum. Samfélagsleg áhrif fiskeldis fyrir vestan eru gríðarleg, til dæmis í Vesturbyggð. Þar er fiskeldið að skapa tvö til þrjú hundruð störf og ungt fólk er áberandi sem flytur þangað. Sömu sögu er að segja frá Austurlandi. Ég segi hiklaust að fiskeldi sé alvöru viðspyrna í atvinnulífinu á þessum svæðum. Störfin í fiskeldi eru margþætt, þetta er síður en svo einhæf atvinnugrein.“