Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 36 & 37 við vinnu Dýrafjarðarganga.
Unnið var í tæknirýmum, fjarskiptahúsum, neyðarrýmum og neyðarskápum við lagnavinnu og tengingar. Klárað var að koma fyrir kantljósum í stétt og tengja öll vegljós og ljós í útskotum. Unnið var við að tengja og stilla af blásara sem eru í göngunum. Búið er að tengja ljósleiðara við göngin og blása ljósleiðara í öll rými og er vinna við tengingar og frágang á ljósleiðara langt kominn. Unnið er að því að leggja út lekan kóax eftir strengstiga, en hann virkar sem loftnetskapall fyrir útvarp og farsíma.
Í Arnarfirði var bráðabirgðabrú yfir Hófsá fjarlægð. Umferð var hleypt á nýja veginn syðst á svæðinu og er nú umferð komin á brúna yfir Mjólká. Unnið var að því að klára fyllingar á burðarlögum og gera klárt undir lagningu slitlags á þeim köflum sem ekki er búið að leggja klæðingu á. Sem fyrr var unnið við efnisvinnslu í Arnarfirði.
Í Dýrafirði var klárað að leggja burðarlög á vegin á þeim kafla sem var eftir og er hann tilbúinn undir klæðingu á slitlagi.
Á meðfylgjandi myndum má sjá vinnu lagningu burðarlags við stálplöturæsi fyrir Kjaransstaðará, niðurrif á bráðabirgðabrú yfir Hófsá, mynd úr göngunum, lagningu neðra burðarlags í Arnarfirði og uppsetningu á kóax kapli.
Fyrir hönd framkvæmdaeftirlits Dýrafjarðarganga
Baldvin Jónbjarnarson