Bolungavík: bæjarráð vill að ríkið yfirtaki fasteign Bergs

Bæjarráð Bolungavíkur  vill að ríkið yfirtaki fasteignina Aðalstræti 20 sem hýsir hjúkrunarheimilið Berg og hefur óskað eftir viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um það.

Í minnisblaði bæjarstjóra kemur fram að að rekstur fasteignarinnar  er ekki fjárhagslega sjálfbær og fyrirséð að sveitarfélagið þurfi að borga með rekstri þess um ófyrirséða framtíð.

Í fasteigninni rekur Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hjúkrunarheimilið Berg, „og er eðlilegt í því ljósi að ríkissjóður sjái jafnframt um rekstur fasteignarinnar.“

Tilkoma þess að Bolungarvíkurkaupstaður byggði og rekur nú fasteignina samkvæmt svokallaðri leiguleið var tekin undir öðrum kringumstæðum eru til staðar í dag, segir í minnisblaðinu. „Í dag eru ekki forsendur til þess að sveitarfélagið sjái um rekstur fasteigna fyrir ríkisjóðs með tilheyrandi óhagræði fyrir báða aðila.“

Ísafjarðarbæ hefur einnig óskað eftir viðræðum við ríkið vegna hjúkrunarheimilisins Eyri en þar var byggt eftir sömu leiguleið og telja bæjaryfirvöld á Ísafirði sömuleiðis að fyrirkomulagið sé fjárhagslega íþyngjandi fyrir sveitarfélagið og kostnaður sem tilheyrir heilbrigðiskerfinu falli á það.