Á fundi bæjarráðs Bolungavíkur í gær var lagt fram erindi frá Arnarlax, þar sem óskað er eftir samræðum við Bolungarvíkurkaupstað með það að markmiði að kynna þarfir félagsins vegna fyrirhugaðrar starfsemi þess. En Arnarlax hefur sótt um leyfi fyrir 10.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.
Bókað er að bæjarráð tekur vel í erindi Arnarlaxs og fól það bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn þeirra um fyrirætlanir fyrirtækisins og kynna fyrir kjörnum fulltrúum.
Á sama fundi var einnig fram bréf frá Arctic Fish þar sem fram kemur ósk þeirra um „að hefja formlega vinnu milli fyrirtækisins og Bolungarvíkur til þess að vinna að greiningum á möguleikum í Bolungarvík og að Bolungarvík geti formlega kynnt þá valkosti sem eru til staðar miðað við þær meginforsendur sem Arctic Fish hefur.“
Arctic Fish hefur sótt um leyfi fyrir 8.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi og hefur auk þess fengið leyfi fyrir liðlega 5.000 tonna eldi á regnbogasilungi í Djúpinu.
Bæjarráð tók sömuleiðis vel í erindi Arctic Fish og fól bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn þeirra um fyrirætlanir fyrirtækisins og kynna fyrir kjörnum fulltrúum.