Bjargtangaviti á Látrabjargi

Bjargtangaviti er 5,9 metra hár, 3,7 m breiður og 6,4 m langur, byggður úr steinsteypu. Vitinn stendur á 0,5 m háum sökkli sem nær 0,6 m út fyrir veggi og er hornsneiddur að framan.

Sökkull er múrhúðaður en veggir með grófri áferð. Útidyr eru í opnu anddyri á miðri bakhlið og fyrir þeim spjaldhurð og steinsteypt skyggni yfir. Á bakhliðinni eru fjórir gluggar, tveir hvorum megin skyggnis og aðrir tveir ofan þeirra efst á veggnum. Í hverjum þeirra eru tveir járnrammar með fjórum hleðsluglerjum.
Vitinn hefur tvær meginformgerðir, annars vegar hátt hvasshyrnt turnform á bakhlið og hins vegar lægri bogformaða framhlið og þar ofan á sömuleiðis bogformað ljóshús sem gengur fram úr turninum. Yfir hvoru tveggja er steinsteypt þak og þakskegg sem gengur út yfir veggi.
Efst á framhlið er kantur í beinu framhaldi af svalagólfi en upp af honum er steinsteypt handrið, lítið eitt utar en sjálfur veggurinn, og stallur á því neðst ásamt opum til að hleypa fram rigningarvatni.

Á jarðhæð var áður gashylkjageymsla og þar er stigi upp á pall á bak við ljóshúsið. Veggir og gólf eru múrhúðuð og máluð. Spjaldasett hurð er út á svalir framan við ljóshúsið og önnur inn í sjálft ljóshúsið. Þar er 270° díoptrísk 500 mm linsa með tveimur 110 volta 1000 watta perum.

Nærri vitanum er steinsteypt hús byggt 1960. Í því er vararafstöð, GPS-leiðréttingartæki og radíóflugviti. Skammt frá vitanum er mastur með sjálfvirkri veðurathugunarstöð.

Vitinn var friðaður af menntamálaráðherra 1. desember 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001.