Atvinnuleysi fer vaxandi en er minnst á Vestfjörðum

Almennt atvinnuleysi var 8,5% í ágúst sem er nokkur aukning frá fyrri mánuðum. Atvinnuleysið var 7,9% í júlí, 7,5% í júní og 7,4% í maí.

Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi aukist lítið eitt í september, en aukist meira þegar kemur lengra fram á haustið.

Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli lækkaði hratt í maí til júlí og var komið niður í 0,9% í júlí, samanborið við 2,1% í júní og 10,3% í apríl þegar það var hvað mest.

Atvinnuleysi tengt þeirri leið er óbreytt í ágúst eða 0,9%, en ákveðið hefur verið að framlengja þetta úrræði út árið 2020.

Alls voru 17.788 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok ágústmánaðar og 3.483 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 21.271 manns.
Á Suðurnesjum er atvinnuleysið mest og fer úr 16,5% í júlí í 18,0% í ágúst.

Á Vestfjörðum var 2,9% atvinnuleysi í júlí en 3,2% í ágúst.