Vesturbyggð: fjarfundir til 10. nóvember vegna covid 19

Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti í síðustu viku að notaður verði fjarfundabúnaður á fundum bæjarstjórnar og fastanefnda Vesturbyggðar til 10. nóvember 2020.

Engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem tekið geta þátt í fundum bæjarstjórnar og nefnda í fjarfundabúnaði. Einnig samþykkir bæjarstjórn Vesturbyggðar að ritun fundargerða fari fram með öðrum hætti en mælt er fyrir um í leiðbeiningum innanríkisráðuneytisins um ritun fundargerða nr. 22/2013, frá 15. janúar 2013. Fundargerð skal deilt með öllum fundarmönnum á skjá við lok fundar og lesin yfir, hún skal svo send fundarmönnum til staðfestingar í tölvupósti eða undirrituð með rafrænum hætti.

Er gripið til þessara ráðstafana vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur tekið sig upp að nýju og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra  hefur veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild  til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga, svo sveitarstjórn sé starfhæf þegar lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna á Íslandi.