Vestri og Víkingur Ólafsvík gerðu 3:3 jafntefli á Ísafirði í gær eftir miklar sviptingar í leiknum.
Vestri byrjaði vel og hafði góð tök á leiknum. Í hálfleik var forystan tvö mörk eftir Ivo Öjhage og Pétur Bjarnason skorðu með stuttu millibili skömmu fyrir leikhlé. Áfram hafði Vestri tök á leiknum fram að miðjum seinni hálfleik. Þá gerðu Ólafsvíkingar þrefalda skiptingu og á tveggja mínutu kafla strax í kjölfarið jöfnuðu Ólafsvíkingarnir.
Enn syrti í álinn 10 mín síðar þegar markaskorarinn Ivo Öjhage fékk rauða spjaldið og Vestramenn voru eftir það einum færri. Víkingur nýtti sér liðsmuninn og komst yfir 3:2 á 82. mínútu. Nú voru Vestramenn búnir að missa unninn leik niður í tap. En þá efldust þer og sóttu ákaft að marki Ólafsvíkinganna og skorði jöfnunarmakið þegar komið var fram í uppbótartíma.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari vestra sagði eftir leikinn að þróun leiksins hefði verið vonbrigði. Með sigri hefði Vestri nálgast toppliðin og verið við það að blanda sér í toppbaráttuna, en jafnteflið þýddi að það myndi frestast um nokkra leiki.
Bjarni sagði leikinn hafa verið að mestu góðan af hálfu Vestra og meira að segja hefði liðið ekki verið fjarri því að bæta við fjórða markinu í blálokin.
Eftir elleftu umferðin er mótið hálfnað og er Vestri í 7. sæti af 12 með 16 stig. Efstu liðin eru með 24 stig og fjögur efstu liðin er með 20 stig eða meira. Síðan koma þrjú lið með 16 og 17 stig.