Sundlaugin á Flateyri: Áætluð verklok 15. september

Vinnu við viðgerð á þaki sundlaugarinnar á Flateyri miðar vel áfram og eru verklok áætluð þann 15. september. Verkið hefur falið í sér rif og förgun á þakdúk, borðaklæðningu, loftunarlektum, hluta af sperrum og fleiru af þaki sundlaugarinnar. Einnig rif og förgun á loftaklæðningu, rakavarnarlagi og hluta þakeinangrunar.

Þetta kemur fram á vefsíðu Ísafjarðarbæjar.

Stór aukaverk hafa komið upp samhliða þakviðgerðinni, meðal annars hafa gluggar, loftræsting og lagnakerfi verið löguð.

Í framhaldi af verklokum verður laugin aftur fyllt svo hægt sé að taka á móti gestum á ný. Nákvæm dagsetning opnunar verður tilkynnt á vef Ísafjarðarbæjar og á Facebook-síðu sveitarfélagsins um leið og hún liggur fyrir.

DEILA