Samtal um leiðarljós

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Á fimmtudaginn næstkomandi, 20. ágúst, boða ég til samráðsfundar í formi vinnustofu, í samstarfi við forsætis-, dóms- og menntamálaráðuneyti, með lykilaðilum af hinum ýmsu sviðum samfélagsins. Markmið fundarins er að ræða áframhaldandi stefnu og aðgerðir vegna Covid-19 til lengri tíma litið. Efnt er til samráðsins í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Markmiðið er að að stilla saman strengi og móta áherslur sem geti nýst í áframhaldandi vinnu við mótun aðgerða vegna Covid-19 á næstu misserum. Vegna sóttvarnarsjónarmiða verður fjöldi þátttakenda takmarkaður en þeim mun meiri áhersla verður lögð á það að öll sem vilja og hafa áhuga geti tekið þátt í fundinum á netinu.

Streymt verður beint frá fundinum á vef Stjórnarráðsins, auk þess sem mögulegt verður að senda athugasemdir og spurningar inn á fundinn yfir netið. Afurð fundarins verður svo gerð aðgengileg á samráðsgátt stjórnvalda eftir þingið, og þar verður einnig hægt að senda inn athugasemdir. Samráðsfundurinn markar því upphaf samráðs við almenning og lykilaðila af hinum ýmsu sviðum, en alls ekki endapunkt.

Á fundinum verða haldnar vinnustofur sem hver og ein fjallar um stöðuna vegna Covid-19 á afmörkuðum sviðum, áhrif og afleiðingar sóttvarnaaðgerða hingað til og hvernig sjá megi framtíðina fyrir sér svo lengi sem kórónaveiran setur mark sitt á samfélagið. Í lokin verður pallborð þar sem þátttakendur draga saman meginlærdóminn af fundinum og hvernig megi nýta samráðið áfram þannig að sem best sé hægt að taka tillit til margvíslegra aðstæðna og ólíkra hagsmuna.

Við vitum ekki hve lengi kórónaveiran verður áhrifavaldur í samfélaginu og verðum að búa okkur undir að lifa með henni til lengri tíma. Til þess að okkur takist það sem best er mikilvægt að stjórnvöld hafi sem gleggsta mynd af áhrifum þeirra sóttvarnaráðstafana á líf almennings sem hingað til hefur verið beitt. Hingað til höfum við á Íslandi borið gæfu til þess að taka ákvarðanir sem eru tiltölulega lítið íþyngjandi fyrir samfélagið, en aðgerðirnar hafa óhjákvæmilega haft áhrif á líf og atvinnu nánast allra landsmanna. Því er mikilvægt að fá að heyra það beint frá einstökum hópum hvernig áhrifin hafa birst þeim og hvað hefur verið mest íþyngjandi, hvernig fólk sér fyrir sér framtíðina í óbreyttu ástandi, hverjar séu helstu áskoranirnar, hvort og hvað sé unnt að gera til að lágmarka röskun á daglegu lífi fólks og gera það bærilegra svo eitthvað sé nefnt.

Ég hvet ykkur öll til þess að fylgjast með fundinum í streymi á vef Stjórnarráðsins og taka þátt í honum á netinu. Samráðsfundurinn er bara upphaf mikilvægs samráðs og ég vona að sem flest taki þátt svo við fáum fram sem flest sjónarmið.

DEILA