Samstarfssamningur milli Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar og Slökkviliðs ISAVIA á Ísafjarðarflugvelli

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar og Slökkviliðs ISAVIA á Ísafjarðarflugvelli.

Að sögn Sigurðar Jónssonar slökkviliðsstjóra er samningurinn sá fyrsti á milli þessara aðila sem er skriflegur og er hluti af uppfærðri brunavarnaráætlun fyrir Ísafjarðarbæ sem nú er til endurskoðunar.

Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þær áhættur sem eru í sveitarfélaginu.

Brunavarnaáætlanir gefa íbúum og stjórn sveitarfélagsins gott yfirlit yfir starfsemi og ástand slökkviliða og geta því orðið grunnur að gæðastjórnun og áætlun um endurbætur t.d. hvað varðar búnað, menntun og samstarf við aðra aðila.

Einn mikilvægasti þáttur brunavarnaáætlunar er að gera sér grein fyrir hvar úrbóta er þörf og gera í kjölfarið verk- og kostnaðaráætlun þar að lútandi.

Áætlunin mun síðar fara til Húsnæðis og mannvirkjastofnunar til staðfestingar.