Ísafjarðarbær: deilt í bæjarráði um uppsagnir

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri lagði fram í gær á fundi bæjarráðs svör við fyrirspurnum Nannýjar Örnu Guðmundsdóttur um niðurlagningu tveggja starfa á bæjarskrifstofum Ísafjarðarbæjar.

Bæjarstjóri vísar til ákvæða í sveitarstjórnarlögum og bæjarmálasamþykkt þar sem m.a. komi fram  að hann er æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins þegar spurt er um hvaða valdheimildir bæjarstjóri notaði til að leggja niður tvö störf án umræðu og samþykktar í bæjarstjórn.

Þá kemur fram í svörum bæjarstjóra að ekkert hefur verið ákveðið um hvernig verkefnum sem umsjónarmaður eignarsjóðs sá um t.d. útboðsgerð og eftirlit með útboðsvinnu vegna viðhalds á eigum sveitarfélagins verði sinnt.

Nanný Arna óskaði sérstakleg eftir því að fá að sjá gögn sem styðja að yfirmaður eignasjóðs hafi í nokkur ár óskað eftir starfslokum, m.a. í tölvupósti bæjarstjóra til bæjarfulltrúa þann 29.júní 2020. Eins var óskað eftir gögnum til stuðnings því að  viðkomandi starfsmaður hafi ætlað sér að hætta í síðasta lagi við 65 ára aldur.

Bæjarstjóri kvaðst ekki geta svarað spurningunni þar sem ólögmætt væri að ræða málefni einstakra starfsmanna.

Í bókun sem Nanný Arna Guðmundsdóttir lagði fram að fengnum svörum bæjarstjóra segir hún að bæjarstjóri og minnihluti bæjarstjórnar leggi ekki sama skilning í að leggja niður störf er hafa áhrif á skipurit sveitarfélagsins og þá án umræðu bæjarfulltrúa og samþykkis bæjarstjórnar.

Niðurlagning starfs er stefnubreyting

„Sú grein samþykktarinnar er bæjarstjóri vísar í, fjallar um eðlilegt starfsmannahald – ráðningar innan marka samþykkta og uppsagnir innan marka stjórnsýslulaga. Fulltrúi minnihlutans í bæjarráði fær ekki séð hvernig niðurlagning starfa sem leiða af sér breytingar á skipulagi sviðs, tilfærslu verkefna og áherslubreytingum, geti fallið undir eðlilegt starfsmannahald, þó uppsagnir per. se. séu það sannarlega. Niðurlagning starfa sem krefjast sérmenntunar og kunnáttu er að mati fulltrúa Í-listans meiriháttar stefnubreyting sem hefði þurft umræðu í bæjarstjórn og kynningu á þeim möguleikum sem sú aðgerð hefur í för með sér, þá væntanlega til góðs fyrir rekstur sveitarfélagsins og þjónustu við íbúa.“

Ítrekar ósk um gögn.

Þá er í bókuninni ítrekuð ósk um að fá að sjá gögn sem tengjast umræddum starfslokum og vísað í 21. gr. bæjarmálasamþykktarinnar:

„Vegna starfa sinna á bæjarstjórn á sérhver bæjarfulltrúi rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar og varðar málefni sem komið getur til umfjöllunar í bæjarstjórn. Séu gögn undanþegin upplýsingarétti almennings sbr. upplýsingalög nr. 140/2012 verða þau ekki afrituð eða farið með þau af skrifstofu. Því ítrekar fulltrúi Í-listans beiðni um að sjá gögn sem styðja við fullyrðingar um ósk um starfslok og vinnu er tengjast þeim.“