Dagvistun verður ekki í boði né félagsstarf eldri borgara á Hlíf á næstunni vegna þess að smit hefur greinst hjá einum íbúa á Hlíf. Þetta segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar en velferðarsvið bæjarin skemur að starfsemi á Hlíf. Nítján eru komnir í sóttkví og eindregnum tilmælum er beint til annarra íbúa um að vera ekki á ferðinni.
Birgir segir að ákveðið hafi verið að bregðast mjög hart við smitinu og grípa til ákveðnari ráðstafana en ella. Betra væri að slaka á síðar þegar málin skýrðust frekar.
Í sama streng tók Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. En smitrakning og skimun er á verksviði stofnunarinnar. Hann sagði í gærkvöldi að enn væri ekkert vitað um hvernig smitið hefi borist inn á Hlíf. Gylfi sagði að fjölmargir hefðu farið í sýnatöku í gær of hann bjóst við því að niðurstaða lægi fyrir seinna í dag. Þá væri betur hægt að meta hver næstu skref yrðu.
Athygli vekur hversu illa gengur að rekja upptök að smitum sem stungið hafa sér niður víða síðustu daga. Þrír grunnskólar í Reykjavík verða lokaðir næstu tvær vikur og smitrakning hefur ekki borið árangur. Þá kom smitið á hótel Rangá í síðustu viku öllum á óvörum og hefur svo sannarlega dregið dilk á eftir sér. Sóttvararyfirvöld eiga greinilega á brattan að sækja þessa dagana.