„Raggagarður er ekki bara einhver leikvöllur. Hann er fyrir alla aldurshópa. Í dag eru komin 6 listaverk í garðinn og við eigum von á sjöunda listaverkinu næsta sumar frá öðrum listamanni. Garðurinn er að verða fjölskyldu og LISTAGARÐUR ásamt sérkennum Vestfjarða og sögu á Boggutúni. Undanfarin ár hefur garðurinn bara þróast í það sem hann er í dag.“ Segir Vilborg Arnardóttir Raggagarðsstjóri en garðurinn átti 15 ára afmæli í síðustu viku. Til stóð að halda upp á afmæli með veglegri hátíð sem var því miður aflýst vegna Covid.

Engu að síður afhenti listakonan Gerður Gunnarsdóttir garðinum listaverkið ÆSKA en áður hefur hún gefið garðinum listaverkin UMHYGGJA, Bergbúinn, Huliðsheimar, Dulheimar og Tveir heimar.

Hér að neðan er ræða listakonunnar við afhjúpun listaverksins.

Ágætu Súðvíkingar og aðrir gestir!

Ég vil byrja á því að óska öllum Súðvíkingum og Vestfirðingum til hamingju með þennan glæsilega garð Raggagarð – Fjölskyldugarð Vestfjarða. Það er mér heiður að fá að afhenda og afhjúpa myndverk mitt sem ég hef kosið að kalla – ÆSKA. Ég hef áður gefið Raggagarði fimm steinverk sem eru i Boggutúni . Öll þessi verk hafa verið unnin hér í Súðavík. Raggagarður er orðinn glæsilegur staður og ég leyfi mér að fullyrða að hér hafi verið unnið einstakt afrek undir forystu og að frumkvæði Vilborgar Arnardóttur og eiginmanns hennar Halldórs Más Þórissonar svo og stjórnar Raggagarðs, sveitastjórnar og sjálfboðaliða. Þessi garður mun verða eitt af aðdráttaröflum Súðavíkur um ókomna tíð. Á fimmtán ára afmæli Raggagarðs vil ég segja.

Til hamingju.

Megi Raggagarður blómgast og dafna um ókomna tíð.

bryndis@bb.is

 

 

DEILA