Engar heimsóknir í Barmahlíð

Sveitarfélög um allt land voru snögg að taka ákvarðanir um aflýsingu viðburða og hátíða á sínum vegum vegna nýrrar bylgju Covid19 og í kjölfarið birtast á heimasíðum þeirra upplýsingar um fleiri ráðstafanir.

Í Reykhólahreppi er nú heimsóknarbann á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Barmahlíð, líkamsræktinni í kjallara sundlaugarhúss hefur verið lokað og ekki mega vera nema 100 gestir í sundlauginni í einu og aðeins 4 á sama tíma í pottinum.

Í Tálknafirði hefur líkamsræktinni líka verið lokað, sem og gufubaðinu og kalda pottinum í Sundlaug Tálknafjarðar. Fjöldatakmarkanir í sundlaugina miðast við 20 gesti og þeir mega bara dvelja í eina klukkustund á sundlaugarsvæðinu. Tjaldsvæðinu hefur verið skipt niður í svæði þar sem mega vera 100 gestir og hefur hvert svæði sína eigin salernisaðstöðu. Pollinum hefur einnig verið lokað.

Vesturbyggð hefur líka lokað sínum líkamsræktarstöðvum, bæði á Patreksfirði og Bíldudal, og saunaklefum og köldum pottum. Fjöldatakmarkanir eru í sundlaugina og á tjaldsvæðinu. Í fyrri bylgju faraldursins var samin viðbragðsáætlun sveitarfélagsins og hún birt á vef Vesturbyggðar.

bryndis@bb.is

DEILA