Dýrafjarðargöng – Framvinda í vikum 32 & 33

Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 32 & 33 við vinnu Dýrafjarðarganga.

Unnið var við að steypa stétt sem kemur milli kantsteins og veggjar í göngunum og er búið að steypa stéttina öðru megin í göngunum og eftir skálanum í Dýrafirði beggja vegna.

Unnið var í tæknirýmum, fjarskiptahúsum og neyðarrýmum við lagnavinnu og tengingar. Að auki var haldið áfram með uppsetningu á skiltafestingum og skiltum og tengingu að þeim. Unnið var að því að leggja lagnir að veglýsingu og tengja ljósin. Byrjað var á að draga lagnir að kantljósum og setja niður kantljós.

Í Arnarfirði var efra lag efra burðarlags lagt frá syðsta enda núverandi vegagerðar á rúmlega kílómeters kafla og er hann klár undir klæðingu.  Að auki var unnið við fyllingar í veg, lagningar neðra burðarlags og fláafyllingar á öðrum vegkafla í Arnarfirði. Sem fyrr var unnið við efnisvinnslu í Arnarfirði. Í Dýrafirði var efra lag efra burðarlags lagt frá gatnamótum við núverandi þjóðveg og rúman kílómeter inn eftir firðinum og er hann klár undir klæðingu. Klárað var að setja saman stálplöturæsi sem Kjaransstaðaá mun renna í undir veginum og efni keyrt að því. Að auki var unnið við girðingavinnu.

Á meðfylgjandi myndum má steypuvinnu á stétt, fyllingar að stálplöturæsi og mynd úr göngunum þar sem búið er að kveikja á vegljósum og steypt stétt komin meðfram vinstri vegg. Athugið að ekki er kveikt á öllum ljósunum og að ljósmyndin gefur ekki alveg rétta mynd af birtustiginu vegna stillinga á myndavélinni.

Fyrir hönd framkvæmdaeftirlits Dýrafjarðarganga

Baldvin Jónbjarnarson

DEILA