Vestri: heimaleikur á morgun gegn ÍBV

Næsti heimaleikur knattspyrnuliðs Vestra í karlaflokki  í 1. deildinni verður á morgun þegar Vestmanneyingar koma í heimsókn.

ÍBV var spáð af fotbolti.net beint aftur upp í Pepsi Max deildina og eftir 6 umferðir af 22 eru Eyjamenn í efsta sæti deildarinnar með 14 stig. Vestramenn hafa staðið sig vonum framar og eru í 6. sæti deildarinnar með 10 stig og hafa unnið þrjá síðustu leiki.

Það er engin spurning að um hörkuleik verður að ræða þar sem Eyjamenn geta ekki gengið að þremur stigum vísum og víst er að Vestradrengir munu velgja þeim rækilega undir uggum.

Einn öflugasti framherji deildarinnar Gary Martin mætir og verður gaman að sjá strákana okkar kljást við hann.

Til gamans má geta að Vestri og ÍBV eru þau lið sem hafa fengið fæst mörk á sig í deildinni, eða 5 stykki.

Leikurinn hefst klukkan 17:30 á miðvikudaginn.

Viðburðastofan mun svo að sjálfsögðu sýna leikinn í beinni. Hægt er að nálgast útsendinguna hérna: www.youtube.com/video/R6hL4JeyzOE

DEILA