Valdís ráðin forstöðumaður Blábankans

Stjórn Blábankans hefur ráðið Valdísi Evu Hjaltadóttur sem næsta forstöðumann Blábankans, samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri. Hún kemur til starfa 1. september n.k.

Valdís Eva hefur fjölbreytta starfsreynslu og hefur meðal annars stofnað fyrirtækið Vegdísi, sem hannar smáhýsi á hjólum, Saumakonuna Valdísi, sem annast saumaþjónustu. Valdís hefur starfað sem framleiðslustjóri hjá Icewear, við liðsveislu hjá Kópavogsbæ, ráðningarstjóri hjá Símstöðinni, umsjónarmaður framleiðslu hjá Clear Channel í Danmörku. Valdís hefur BSc gráðu í framleiðslustjórnun frá Copenhagen Business School og hönnunartækni frá TEKO og BEC Design í Danmörku.

Ketill Berg Magnússon er stjórnarformaður Blábankans:

“Við erum spennt að vinna með Valdísi Evu við að fylgja eftir því góða starfi sem unnið hefur verið síðust þrjú ár við uppbyggingu Blábankans. Hún hefur hugmyndaauðgi og kraft til að hvetja til samfélagslegrar nýsköpunar í þessu fjölskylduvæna og fallega sjávarþorpi á miðjum Vestfjörðum. Blábankinn er nú þegar orðinn fyrirmynd fyrir samfélagsmiðstöðvar annars staðar á landinu og það hefur sýnt sig að samstarf ríkis, sveitafélags og einkaaðila virkar vel í svona starfi. Við ætlum að vaxa enn frekar á næstu árum og bjóðum hugmyndaríku fólki alls staðar að úr heiminum að koma til Þingeyrar og taka þátt í því með okkur.”

Blábankinn, samfélagsmiðstöðin á Þingeyri er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2017 þegar Landsbankinn hætti starfsemi á Þingeyri og bauð húsnæðið til starfseminnar og Alain De Cat fjárfestir hjá Vestinvest beitti sér fyrir stofnuninni og hefur verið stjórnarformaður frá upphafi. Það voru Vestinvest ehf, Ísafjarðarbær og Simbahöllin sem stofnuðu Blábankann og nutu fljótlega stuðnings Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins, Verkvest og fyrirtækja á svæðinu.

Í Blábankanum er vinnurými fyrir frumkvöðla, samfélagsmiðstöð fyrir íbúa Þingeyrar og þar eru hýst árangursrík verkefni á sviði samfélagslegrar nýsköpunar sem hlotið hafa verðskuldaða athygli víða um heim (sjá ársskýrslu Blábankans fyrir árið 2019).

Ný stjórn Blábankans var kjörin á dögunum. Í henni sitja:
– Ketill Berg Magnússon (stjórnarformaður)
– Arna Lára Jónsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
– Bryndís Ósk Jónsdóttir, Ísafjarðarbær
– Neil Shiran Þórisson, Arctic Fish
– Agnes Arnardóttir, Íbúasamtökin Átak

DEILA