Úrskurðarnefnd setur ofan í við Skipulagsstofnun

Frá fyrirhuguðum stað fyrir vindlundinn í Dalasýslu.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur með formlegum úrskurði komist að  þeirri niðurstöðu að  ekki verður „annað séð en að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins. Verður því lagt fyrir Skipulagsstofnun að ljúka afgreiðslu þess án frekari tafa.“ Hafði málið þá tafist í 15 mánuði.

Um er að ræða tillögu Storm orku ehf að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða í  Dalabyggð.

Tillaga að matsáætlun fyrir Storm I vindorkuverkefni vegna 80-130 MW vind­orkuvers að Hróðnýjarstöðum, Dalabyggð, var auglýst á heimasíðu Skipulagsstofnunar 23. apríl 2019. Fram kom fram að ákvörðunar Skipulagsstofnunar væri að vænta 9. maí sama ár.

Lögum samkvæmt á stofnunin að skila áliti sínu innan fjögurra vikna.

Eftir ítrekanir kæranda um stöðu mála var erindinu svarað 1. október 2019, þar sem fram kom að Skipulagsstofnun væri meðvituð um að dráttur hefði orðið á afgreiðslu verkefnisins sem mætti rekja til nokkurra atriða, m.a. fjölda mála hjá stofnuninni og þess að beðið hefði verið eftir frekari umsögn Náttúrufræðistofnunar. Því miður væri ekki hægt að segja hvenær ákvörðun lægi fyrir, en stofnunin myndi reyna að hraða vinnu við hana eins og unnt væri.

Þann 22. apríl 2020 var seinagangurinn kærður til Umhverfisráðuneytisins, emn það framsendi erindið til úrskurðarnefndarinnar.

Skipulagsstofnun bar því við að fjögurra vikna fresturinn ætti við frá þeim tíma sem fullnægjandi tillaga að matsáætlun bærist og að umsókn Storms orku hefði ekki verið það. Þá var því borið við að vindorkuver af því umfangi sem fyrirtækið  áformi eigi sér ekki hliðstæðu á Íslandi.

Þá sagði í málsbótum Skipulagsstofnunar að uppi væri óvissa um þær kröfur sem gera skuli til rannsókna vegna vindorkuvera svo tryggt verði að upplýsa megi um líkleg umhverfisáhrif þeirra. Í því skyni að eyða þeirri óvissu og tryggja samræmdar kröfur hafi Skipulagsstofnun átt samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi almennar og sértækar lágmarkskröfur til fuglarannsókna í tengslum við uppbyggingu vindorkuvera. Þá var því borið við að verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar eigi eftir að fjalla um áformin og loks að mikill fjöldi umfangsmikilla mála til meðferðar hjá Skipulagsstofnun auk þess sem stofnunin hafi búið við viðvarandi manneklu.

Niðurstaða:

Að áliti úrskurðarnefndarinnar er sá dráttur sem orðinn er á afgreiðslu tillögu kæranda að matsáætlun vegna vindlundar ekki ástæðulaus en ekki verði ekki fram hjá því litið að komið er langt fram yfir lögboðinn frest 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Úrskurðarnefndin segir að af málshraðareglunni leiði að Skipulagsstofnun beri að sjá til þess að máli sé eðlilega framhaldið og „hefur hún þann möguleika að fallast ekki á tillögu að matsáætlun eða fallast á með athugasemdum“

Lokaorðin eru að  óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins. Var því lagt fyrir Skipulagsstofnun að ljúka afgreiðslu þess án frekari tafa.

Skemmst er þess að minnast að Skipulagsstofnun tók tvö ár að gefa álit sitt á tillögu að matsáætlun um 4000 tonna laxeldi Arctic Sea Farm í Arnarfirði.

DEILA