Tungumálaþorp rís á Ísafirði

Tungumálatöfarar og Litla Sif í samstarf um að reisa tungumálaþorp úr endurunnu efni á Ísafirði í ágúst. Samstarfssamningur um rannsóknir og málþing um verkefnið hefur einnig verið gerður við Árnastofnun og Prófessorsembættið á Hrafnseyri.

 

Tungumálatöfrar er íslenskunámskeið fyrir 5 – 11 ára gömul börn sem fram fer árlega á Ísafirði og verður haldið 3. – 8. ágúst á þessu ári. Litla Sif er fyrirtæki sem framleiðir vörur úr gömlum flíkum, gardínum og alls kyns efni sem fellur til á Ísafirði. Vörumerkið Litla Sif hefur á stuttum tíma getið sér gott orð fyrir litríkar vörur úr endurnýttum textíl. www.litlasif.is

 

Á námskeiðinu hefur verið unnið með ákveðið þema ár hvert, t.d. töfra, flöskuskeyti og heimssiglingu. Í ár slá Tungumálatöfrar og Litla Sif saman og byggja tungumálaþorp úr pakkningum utan af stórum heimilistækjum. Í anda Litlu Sifjar verður búið til þorp úr pakkningum utan af stórum heimilisvörum, gömlum póstpokum, keflum og notuðu textíl.

 

Skapandi nálgun í kennslu

Tónlist og myndlist skipar mikinn sess í kennsluaðferðunum sem notaðar eru. Áhersla er lögð á ferlið sem byrjar á fyrsta degi og lýkur með því að verkefnið sem krakkarnir hafa unnið að vikuna sem námskeiðið stendur verður til sýnis. Vaida Braziunaita segir ótrúlega spennandi að fá Litlu Sif til liðs við námskeiðið. „Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr samstarfinu við þetta framsækna og skapandi fyrirtæki. Tungumálatöfrar eru settir á laggirnar til að örva íslenskugetu fjöltyngdra barna og um leið að efla sjálfstraust þeirra og virkni. Það er spennandi að geta tengt það umhverfisvernd og nýtni.“

 

Rannsóknir og málþing

Nýlega var einnig ákveðið að eiga samstarf við Árnastofnun um að rannsaka hvaða kennsluefni er til á netinu fyrir þennan aldurshóp. Stofnunin fékk styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að ráða Kelsey Paige Hopkins sem framkvæmir rannsóknina. Ætlunin er að skoða kennsluaðferðir kennaranna á námskeiðinu og hugmyndir þeirra um námsefni og gera könnun á meðal forráðamanna barnanna um hversu aðgengilegt það efni sem þegar er til er fyrir þá.

Prófessorsembættið á Hrafnseyri mun í samstarfi við Tungumálatöfra standa fyrir málþingi um Tungumálatöfra og þörfina fyrir fjölbreyttara námsefni. Embættið hlaut einnig stuðning frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og réð Alexöndru Ýr van Erven til þess að þróa og stýra verkefninu.

 

Fimm kennarar eru á námskeiðinu með 40 börn. Enn eru nokkur pláss laus og hægt er að skrá börnin hér: https://tinyurl.com/un7md9e

 

Námskeiðið er stutt af Barnamenningarsjóði, Ísafjarðarbæ, Uppbyggingarsjóði, Verkvest, Fosvest og Landsbankanum.

 

Frekari upplýsingar veitir Vaida Braziunaite í gegnum tungumalatofrar@gmail.com

 

DEILA